Íslenskir kjósendur eru nú hallari undir markaðshyggju og opingátt í alþjóðamálum en þeir hafa verið lengi. Í kosningunum 2016 og 2017 voru kjósendur fylgjandi aukinni félagshyggju, og stærra hlutverki ríkisins í samfélagsgerðinni, en þeir voru árið 2007. Í kosningunum 2021 hafði þetta breyst og fylgni kjósenda við markaðshyggju var komin aftur á þann stað sem hún mældist í kosningunum 2007, einu og hálfu ári fyrir bankahrunið.
Svipuð þróun átti sér stað þegar kemur að því að mæla afstöðu kjósenda til alþjóðavæðingar og þátttöku í alþjóðasamstarfi. Hún mældist afar jákvæð árið 2007, þegar íslenska útrásin stóð sem hæst, en dróst verulega saman eftir hrun og aukin einangrunarhyggja átti upp á pallborðið næsta áratuginn. Í kosningunum í fyrra varð svo sveifla í afstöðu kjósenda í átt að meiri opingátt og mælist jákvæðni þeirra gagnvart henni nú á svipuðum stað og árið 2007.
Þetta kemur fram í greininni „Kjósendur eftir kreppu: Breytingar, flökt og stöðugleiki í Alþingiskosningunum 2021“ eftir Agnar Frey Helgason, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Ólaf Þ. Harðarsonar, prófessor emeritus við sömu deild, Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við deildina, Evu H. Önnudóttur, prófessor við stjórnmálafræðideild og Huldu Þórisdóttur, sem er dósent við sömu deild. Greinin birtist í tímaritinu Stjórnmál & stjórnsýsla fyrir skemmstu. Þar greina höfundar síðustu þingkosningar út frá nokkrum lykilvísum fengnum úr kjósendakönnun Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS).
Algjör viðsnúningur í afstöðu gagnvart ESB
Breytt afstaða Íslendinga til markaðshyggju og alþjóðasamvinnu hefur birst í ýmsum könnunum sem gerðar hafa verið undanfarið. Í mars var til að mynda birtur Þjóðarpúls Gallup sem sýndi að 47 prósent landsmanna styddu aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) en að einungis 33 prósent væru henni mótfallnir.
Í síðasta mánuði gerði Prósent sambærilega könnun sem sýndi að 48,5 prósent svarenda eru hlynntir aðild en 34,9 prósent andvígir. Niðurstöðurnar voru því svipaðar niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup frá því í mars.
Samkvæmt könnun Prósents voru kjósendur Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata jákvæðastir með á bilinu 79 til 83 prósent hlynnt aðild en innan við tíu prósent andvíg. Það vakti athygli að fleiri kjósendur Vinstri grænna voru hlynntir Evrópusambandsaðild en andvígir, 40 prósent á móti 33, en flokkurinn er einnig sá sem hefur flesta óákveðna í afstöðunni, það er 24 prósent. Samkvæmt stefnu Vinstri grænna er „hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan.“
Mótfallnastir aðild Íslands að Evrópusambandinu voru kjósendur Miðflokksins, eða 68 prósent, og þar á eftir kjósendur Sjálfstæðisflokksins, 63 prósent. Alls 20 prósent Sjálfstæðismanna voru hins vegar hlynntir aðild en aðeins átta prósent kjósenda Miðflokksins.
Niðurstaða ÍSKOS bendir til þess að mun fleiri breytur spili inn í þessa hugarfarsbreytingu en einungis stríðsrekstur Rússa Í Úkraínu.
Þeir sem eru á móti NATO vilja samt NATO
Jákvæði Íslendinga gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur einnig aukist umtalsvert.
Samkvæmt könnun sem Maskína vann fyrir utanríkisráðuneytið undir lok maímánaðar eru tæplega 71 prósent landmanna jákvæð í garð aðildar Íslands að bandalaginu og hefur jákvæðnin í garð aðildar aukist mikið frá fyrri sambærilegum mælingum.
Mesta athygli vakti, er niðurstöðurnar voru brotnar niður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, að jákvæðni í garð aðildar að bandalaginu var umfram landsmeðaltal hjá þeim hópi svarenda sem sagðist ætla að kjósa Vinstri græn. Flokkurinn er sá eini á þingi sem hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni að Ísland ætti að ganga úr NATO.
Það virðist þó litlu skipta um þessar mundir, en 72,3 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa flokkinn voru jákvæð í garð aðildar Íslands að bandalaginu. Einungis 6,4 prósent þeirra sem sögðust ætla sér að kjósa Vinstri græn sögðust neikvæð gagnvart aðild Íslands að bandalaginu.
Þetta er gjörbreytt staða frá fyrri mælingum. Í könnun sem Maskína framkvæmdi í mars 2020 voru 35,4 prósent væntra kjósenda Vinstri grænna jákvæð í garð NATO-aðildar Íslands og 30,1 prósent þeirra sögðust neikvæð. Í mælingu Maskínu í maí 2021 sögðust 38,4 prósent kjósenda Vinstri grænna svo jákvæð í garð aðildar og 24,7 prósent neikvæð.