Íslenskir rannsóknaraðilar hafa verið í sambandi við Taks, færeyska skattinn, og óskað eftir upplýsingum um þrjú félög tengd Samherja sem eru skráð hafa verið í Færeyjum. Þetta kemur fram í frétt færeyska Kringvarpsins í dag.
Félögin þrjú heita Tindhólmur, Harengus og Scombrus og munu hafa verið í hlutaeigu dótturfélaga Samherjasamstæðunnar sem skráð eru á Kýpur. Annað kvöld mun færeyska sjónvarpið taka til sýninga heimildaþátt sem ber heitir „Teir ómettiligu“ sem útlagst gæti sem „Hinir óseðjandi“ á íslenskri tungu.
Félögin þrjú í slitameðferð
Samherji hefur tengst færeyskum sjávarútvegi allt frá árinu 1994, en þá stofnaði fyrirtækið útgerðarfélagið Framherja í félagi við Færeyinga. Þorsteinn Már Baldvinsson var stjórnarformaður félagsins þar til í nóvember 2019, en hann sagði sig frá því hlutverki eftir umfjöllun um meintar mútugreiðslur og fleira í starfsemi Samherja í Namibíu.
Samkvæmt eftirgrennslan Kjarnans í færeysku fyrirtækjaskránni, Skrásetingu Færeyja, hefur félögunum þremur sem íslenskir rannsóknaraðilar leituðu upplýsinga um hjá færeyska skattinum öllum verið stefnt í slitameðferð, en það var gert í nóvember og desember árið 2020.
Egill Helgi Árnason, einn þriggja Íslendinga sem nú sæta ákæru vegna Samherjamálsins á namibískri grundu, sat í stjórnum færeysku félaganna þriggja frá 2015 og þar til snemma árs 2019, samkvæmt tilkynningum til færeysku fyrirtækjaskrárinnar.
Þorsteini Má bregður fyrir í auglýsingu
Í stiklu sem Kringvarpið hefur birt á samfélagsmiðlum í dag kemur lítið fram um væntanlegt efni þáttarins, en samkvæmt því sem segir í frétt Kringvarpsins í dag fjallar þátturinn meðal annars um hvernig rannsókn á starfsemi Samherja í Namibíu tengist til Færeyja. Í stiklunni má sjá forstjóra Samherja bregða fyrir.
Héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri vinna að rannsókn Samherjamálsins hér á landi, en ekki kemur fram í frétt Kringvarpsins hvort embættanna óskaði liðsinnis færeyska skattsins. Í frétt Kringvarpsins er einungis talað um að íslenska lögreglan hafi sett sig í samband.