Rúmlega 5,1 milljarðs afsláttur var veittur af virðisaukaskatti á árinu 2020 vegna innflutnings og fyrstu kaupa á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbílum. Bílar af þessu tagi njóta tímabundinnar undanþágu á virðisaukaskatti upp að ákveðnu marki. Þannig er veittur allt að 1.560.000 króna afsláttur af virðisaukaskatti á hvern rafmagns- og vetnisbíl en 960 þúsund á hvern tengiltvinnbíl. Til viðbótar við þetta þá taka vöru- og bifreiðagjöld mið af skráðri koltvísýringslosun og því eru alla jafna engin vörugjöld greidd af rafmagnsbílum og lágmarks bifreiðagjöld.
Á síðasta ári nam upphæð niðurfellds virðisaukaskatts á rafmagnsbíla alls 2,9 milljörðum króna en slíkur afsláttur var veittur vegna innflutnings á 2.632 rafmagnsbílum. Rúmir 2,2 milljarðar virðisaukaskatts voru felldir niður vegna 2.360 tengiltvinnbíla. Þá var virðisaukaskattur felldur niður vegna innflutnings á einum vetnisbíl. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Sigríðar Á Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um undanþágur frá sköttum.
Meðal þess sem spurt var um í fyrirspurn Sigríðar var hvort mat lægi fyrir á því hvort lítill bensínbíll hefði meiri eða minni losun koltvísýrings í för með sér frá upphafi framleiðslu til enda notkunar heldur en stór rafbíll. Í svarinu er vísað í skýrsluna How clean are electric cars? T&E's analysis of electric car lifecycle CO2 emissions sem kom út á vegum Transport & Environment í apríl í fyrra. Þar kemur fram að rafmagnsbílar í Evrópu losi alltaf minni koltvísýring en hefðbundnir bensín- eða dísilbílar að teknu tilliti til losunar í framleiðsluferlinu.
„Þó að Ísland sé ekki í skýrslunni þá tryggir raforkukerfið hér á landi að niðurstaðan sé jafn góð eða betri en besta niðurstaðan í skýrslunni. Á Íslandi er því erfitt að finna nógu stóra rafmagnsbifreið sem gæti losað meiri koltvísýring en smæsta bensínbifreið,“ segir í svarinu.
Niðurfelling ívilnunar vegna tengiltvinnbíla frestað
Virðisaukaskattur hefur ekki verið felldur niður, upp að vissu marki, vegna innflutnings á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbílum frá því um mitt ár 2012. Í þinginu hafa hins vegar verið lagðar fram tillögur sem gera ráð fyrir því að skattaafsláttur vegna innflutnings á tengiltvinnbílum verði afnuminn. Þessum breytingum hefur hins vegar tvívegis verið frestað.
Þannig ákvað efnahags- og viðskiptanefnd að taka undir sjónarmið bílainnflytjenda og Grænnar orku í desember 2019 þegar nefndin mat það sem svo að ekki væri tímabært að fella niður skattaívilnun vegna innflutnings tengiltvinnbíla. Þá stóð til að ívilnanir vegna tengiltvinnbíla yrðu felldar niður við lok árs 2020 en að ívilnanir vegna rafmagns- og vetnisbíla yrðu framlengdar til lok árs 2023. Eftir breytingartillögu frá nefndinni varð niðurstaðan sú að hámark niðurfellds virðisaukaskatts af tengiltvinnbílum átti að lækka í skrefum.
Ári síðar ákvað efnahags- og viðskiptanefnd að lækkun á ívilnunum vegna innflutnings á tengiltvinnbílum skyldi frestað. Ívilnunin verður því óbreytt út þetta ár og mun fyrst lækka á árinu 2022. „Nefndinni hafa borist ábendingar um að í samræmi við stefnu stjórnvalda í orkuskiptum standi rök til þess að fresta gildistöku þeirrar lækkunar,“ sagði í nefndaráliti.
Tengiltvinnbílar reynst „mikilvæg brú“ yfir í hreina rafbíla
Umræður um þessa frestun spunnust í þingsal og Andrés Ingi Jónsson, sem þá var utan flokka, sagði áhöld vera um hversu hreinir tengiltvinnbílar væru og spurði Óla Björn Kárason formann nefndarinnar hvaðan þessar ábendingar hefðu borist. Fram kom í ræðu hans að ábendingar hefðu meðal annars borist frá „Bílgreinasambandinu, öðrum sérfræðingum og bílaleigufyrirtækjum og Samtökum ferðaþjónustunnar“ sem bent hefðu á að tengiltvinnbílar hefðu reynst mikilvæg brú yfir í hreina rafbíla auk þess sem þeir henti betur við núverandi aðstæður.
Ljóst má vera að niðurgreiðsla á tengiltvinnbílum er álitamál. Í frétt Fréttablaðsins frá því fyrr í þessum mánuði sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, til að mynda að það ætti að hætta að niðurgreiða tengiltvinnbíla og dýra rafbíla. „Til hvers að greiða niður tengiltvinnbíla sem losa töluvert magn af gróðurhúsalofttegundum?“ er haft eftir Árna í fréttinni. Hann sagði einnig að fáir hafi ráð á því að kaupa dýra rafmagnsbíla, þeir sem hefðu ráð á því þyrftu ekki á niðurgreiðslu frá ríkinu að halda.