Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, ætla ekki að segja af sér ráðherraembættum þrátt fyrir að hafa verið sektaðir af lögreglu vegna brota á ströngum sóttvarnareglum sem voru í gildi á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Sunak, Johnson og Carrie Johnson, eiginkona forsætisráðherra, hafa öll verið sektuð fyrir að hafa verið viðstödd afmælisveislu forsætisráðherra í Downingstræti 10 19.júní 2020. Johnson er því fyrsti sitjandi forsætisráðherra Bretlands sem er sektaður fyrir að brjóta gegn lögum. Öll þrjú hafa beðist afsökunar og greitt sektina en þingmenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að Johnson og Sunak segi af sér.
Breska lögreglan hefur rannsakað tólf samkvæmi á vegum breskra yfirvalda á þeim tíma sem strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Fyrstu 20 sektirnar voru gefnar út í byrjun mánaðarins en þær telja nú 50 talsins og von er á fleirum. Johnson var búinn að gefa það út að hann hyggðist upplýsa um það yrði hann sektaður.
Það varð svo ljóst í gær og Johnson segir að vegna sektarinnar beri honum „enn ríkari skylda til að standa við skuldbindingar sínar“ og Sunak sagðist vilja „einbeita sér að því að standa sig fyrir bresku þjóðina“.
Hvarflaði ekki að Johnson í afmælisveislunni að lögbrot væri mögulegt
Ekki hefur verið gefið upp hversu há sektin er en Johnson fullyrti í ávarpi sem hann flutti fyrir fjölmiðla í gær að hann væri búinn að greiða hana. Johnson sagðist skilja reiði almennings vegna málsins
„Ég hef greitt sektina og biðst enn og aftur afsökunar,“ sagði Johnson, aðspurður hvort hann ætlaði að segja af sér. Hann sagðist vilja einblína á þau mikilvægu verkefni sem fram undan eru, meðal annars áhrif stríðsins í Úkraínu.
Johnson segir að afmælisveislan hafi aðeins staðið yfir í um tíu mínútur og að það hefði ekki hvarflað að honum á þeim tíma að hann, eða aðrir viðstaddir, væru að gerast brotleg við lög. „En að sjálfsögðu, lögreglan hefur komist að því að svo hafi verið og ég virði niðurstöðu rannsóknar hennar að fullu,“ sagði Johnson.
„Bretland verðskuldar meira, þeir verða að víkja“
Þingmenn stjórnarandstöðunnar saka Johnson og Sunak um að ljúga að almenningi um þátttöku þeirra í samkvæmum á vegum forsætisráðuneytisins í Downingstræti 10. Keir Starmer, leiðtogi Verkalýðsflokksins, fer þar fremst í flokki.
„Hugsanir mínar eru hjá öllum þeim sem gerðu hið rétta. Þetta er eins og löðrungur fyrir þau sem færðu fórnir, hittu ekki ættingja, gátu ekki verið viðstödd jarðarfarir, brúðkaup eða jafnvel fæðingu barna sinna. Seku mennirnir eru forsætisætisráðherra og fjármálaráðherra, þeir vanvirtu allar þessar fórnir. Þetta er í fyrsta sinn sem sitjandi forsætisráðherra brýtur lög. Svo laug hann að almenningi um það. Bretland verðskuldar meira, þeir verða að víkja“ sagði Starmer í samtali við BBC.
Flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa lýst yfir stuðningi við Johnson og Sunak. Grant Shapps samgönguráðherra segir að Johnson „dauðskammist sín“ vegna sektarinnar en að hann hafi ekki brotið lög af ásettu ráði. „Allir eru mennskir. Fólk gerir mistök,“ segir Shapps.