Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að enginn ráðherra í ríkisstjórn Íslands hafi farið fram á að staðið yrði að fyrirhugaðri brottvísun flóttamanna úr landi með öðrum hætti en hann hefur boðað. Það kalli hann samstöðu um málið. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV en rætt var við Jón að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Hann segir að mörg hundruð manns hafi verið vísað frá Íslandi í tíð þessarar ríkisstjórnar á sama grundvelli og nú stendur til að vísa stórum hópi flóttamanna úr landi án þess að gerð hafi verið athugasemd við það vinnuferli.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við RÚV í dag að hópurinn teldi undir 200 manns, en ekki tæplega 300 líkt og dómsmálaráðherra hefði áður sagt. Að hennar beiðni hafi dómsmálaráðherra komið með minnisblað inn á ríkisstjórnarfundinn í morgun. Aðspurð hvort einhverjum verði vísað á brott á meðan staðan sé eins og hún er sagði Katrín að sumir væru þegar að fara sjálfviljugir eftir að málsmeðferð þeirra lauk. „Önnur eru að bíða mögulega eftir frekari meðferð þannig að það er ekki hægt að tala um þetta sem hóp heldur verður að horfa á þetta sem ólíka einstaklinga.“
Sagðist hafa gert „alvarlegar athugasemdir“
Jón sagði í Kastljósi á þriðjudag að samstaða væri í ríkisstjórn um málið, að reglur væru skýrar og að engar breytingar væru fyrirsjáanlegar á þeirri ákvörðun.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og varaformaður Vinstri grænna, bar það til baka í tíufréttum RÚV sama kvöld og sagði það rangt að samstaða væri um málið. Hann sagðist hafa gert „alvarlegar athugasemdir“ við þá vegferð sem Jón væri á og að hann væri ekki ánægður með það hvernig Jón hafi haldið á málinu. Guðmundur Ingi sagði að fleiri ráðherrar hafi gert athugasemdir við vegferð Jóns á ríkisstjórnarfundinum en vildi ekki segja hverjir það voru. Þeir þyrftu sjálfir að greina frá því.
Varðandi gagnrýni Guðmundar Inga sagði Jón að menn virði sínar skoðanir. „Það er bara eins og gengur og gerist við ríkisstjórnarborðið um hin ýmsu mál. Og menn geta haft þær skoðanir að það eigi að skoða einhver mál einstaklinga sem hér eru undir með einhverjum öðrum hætti. En það hefur engin komið fram með einhverja formlega tillögu um það að það verði unnið eftir öðrum ferlum og það kalla ég samstöðu í ríkisstjórninni.“
Aðspurð um ummæli Guðmundar Inga, og fullyrðingu hans um að Jón hefði sagt ósatt um samstöðu innan ríkisstjórnarinnar, sagði Katrín við RÚV að hann hefði verið að segja að ráðherrarnir tveir væru ekki sammála um nálgun í þessum málum. „Ég sé ekki að það eigi að koma mjög á óvart að þessir flokkar seú ekki endilega sammála í þessum málum.“
Ætla að leggja fram frumvarp
Þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar greindu frá því í morgun að þeir ætli að leggja sameiginlega fram frumvarp til að bregðast við stöðu þeirra tæplega einstaklinga sem nú stendur til að senda úr landi með fjöldabrottvísun.
Í tilkynningu frá þeim sagði að flokkarnir leggi til að nýtt ákvæði verði sett til bráðabirgða sem felur í sér að dráttur á málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem varð vegna heimsfaraldurs COVID-19, verði ekki talinn á ábyrgð umsækjendanna sjálfra og því skuli taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hafi þeir verið hér í 12 mánuði eða lengur. „Þingflokkarnir leggja einnig til að umsækjendur sem sóttu um vernd á meðan heimsfaraldur COVID-19 stóð sem hæst og hafa verið hér á landi í 18 mánuði eða lengur, fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“
Frumvarpið er í yfirlestri verður dreift á Alþingi á mánudaginn.