Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segist hneykslaður á framgöngu stjórnvalda í Grikklandi, með Syriza flokkinn í broddi fylkingar, og sakar þau um vinsældarbrölt og óheiðarleika. Hann segir að fólkið í Grikklandi eigi skilið að fá að „heyra sannleikann“ því fjármálaráðherrar ríkja Evrópusambandsins hafi verið opnir fyrir því að halda áfram viðræðum, sem og fulltrúar annarra kröfuhafa Grikklands. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Juncker hélt fyrr í dag, og breska ríkisútvarpið BBC segir frá.
Grísk stjórnvöld hafa ákveðið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið 5. júlí næstkomandi. Nú hafa fjármálaráðherrar og leiðtogar stærstu ríkja Evrópusambandsins, Frakklands, Þýskalands og Ítalíu, sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan muni í reynd snúast um hvort Grikkir vilji vera áfram hluti af evrusvæðinu eða ekki, og taki þá upp drökmuna á nýjan leik, en það var þjóðargjaldmiðill Grikklands þar til evran var tekin upp árið 2002.
Eins og greint var frá í morgun, þá telur hópur sérfræðinga hjá tímaritinu The Economist telur 60 prósent líkur á að grískir kjósendir styðji við ríkjandi stjórnvöld og hafni samningnum. Alls er þó óvíst hvort atkvæðagreiðslan hafi nokkurt gildi þegar uppi er staðið. Hluti af fyrra neyðarláni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Grikklands fellur á gjalddaga á þriðjudag og það er óvíst að gjalddaga verði frestað svo auðveldlega.
Grísk stjórnvöld tilkynntu í gær að bankar í landinu myndu ekki opna í dag og hefur verið ákveðið að þeir verði lokaðir alla vikuna. Einungis verður hægt að taka út 60 evrur á dag úr hraðbönkum á meðan lokunin stendur yfir, jafnvirði tæplega níu þúsund króna. Efnahags- og bankahrun virðist blasa við Grikkjum, þó óvissa ríki um hvert framhaldið verður eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Markaðir hafa tekið óvissunni í Grikklandi illa. Hlutabréf hafa víðast hvar í Evrópu lækkað í verði, en fjárfestar hafa þó ekki tekið skyndiákvarðnir um sölu eða tilfærslu á fjármagni, með tilheyrandi miklum lækkunarafleiðingum, að því er segir á vef Wall Street Journal.
Mikil óvissa ríkir um lendingu á skuldavanda Grikkja en samningaviðræðum við önnur evruríki um frekari neyðarlán var slitið á laugardag. Í kjölfarið tilkynnti Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, að málið, og samningstillögur lánardrottna, fari í þjóðaratkvæði þann 5. júlí næstkomandi.
The dignity of the Greek people in the face of blackmail and injustice will send a message of hope and pride to all of Europe. #Greece
— Alexis Tsipras (@tsipras_eu) June 28, 2015