Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, kjósandi í Reykjavíkurkjördæmi suður, hefur lagt fram kæru til Alþingis þar sem hann krefst þess að þingið úrskurði ógildar Alþingiskosningarnar sem fram fóru í lok september síðastliðins.
Það gerir hann á grundvelli þess að það fyrirkomulag sem viðhaft er til að skera úr um lögmæti kosninganna samrýmist ekki lögfestum viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. „Brotið felst í því að Alþingi hyggist úrskurða sjálft um lögmæti kosninganna, þrátt fyrir augljósa hagsmuni þingmanna af niðurstöðunni, og án þess að fyrir liggi nokkurs konar áfrýjunarúrræði til handa kjósendum. Bendir kærandi á fyrirliggjandi álit Feneyjanefndarinnar í þessu samhengi,“ segir í kærunni.
Þess fyrir utan krefst kærandi þess að kosningarnar verði ógiltar í samræmi við lög um kosningar til Alþingis á grundvelli þess að honum var sem fötluðum einstaklingi meinaður réttur til leynilegra kosninga. Tólf kærur hafa borist Alþingi vegna kosninganna og hægt er að sjá þær á vef þingsins.
Upplifði talsverð óþægindi þegar hann kaus
Fram kemur í kærunni að Rúnar Björn hafi kosið á kjörfundi í Borgarbókasafni við Kringluna þann 25. september síðastliðinn. Þar sem hann er lamaður fyrir neðan axlir vegna mænuskaða naut hann aðstoðar eiginkonu sinnar við kosninguna og er hún vitni um málsatvik.
„Á bókasafninu höfðu kjörklefar verið reistir úr léttum bráðabirgða veggjum. Þeir voru staðsettir í miðju rýmisins og mynduðu þannig nokkurs konar eyju sem virðist hafa verið hægt að ganga í kringum. Kjörklefinn fyrir fatlað fólk var á hliðinni á þessari eyju og myndaðist þannig þröngur gangur aftan við klefann.
Sá kjörklefi sem ætlaður var fólki sem notar hjólastól var hins vegar ekki með tjaldi svo kærandi gat ekki dregið fyrir þegar hann kaus. Á sama tíma og hann greiddi atkvæði gekk ókunn manneskja fram hjá kjörklefanum og hefur viðkomandi sem kærandi kann engin deili á augljóslega getað séð hvernig kærandi kaus. Þess ber að geta að gangurinn sem viðkomandi manneskja gekk á var svo þröngur að umræddur einstaklingur hefur verið í um það bil eins til tveggja metra fjarlægð frá kæranda þegar hann merkti við kjörseðilinn. Engar hindranir virðast hafa verið settar upp á þennan gang til að minnka líkur á því að slík umferð ætti sér stað á meðan fólk kaus,“ segir í kærunni.
Fram kemur að Rúnar hafi upplifað talsverð óþægindi í tengslum fyrirkomulagið. Meðal annars á grundvelli þess að á meðan hann kaus hafi hann séð þá kjósendur sem stóðu í biðröð við kjördeildina. Hann upplifði fyrir vikið alls ekki að hann væri að taka þátt í leynilegum kosningum.
Aðstæður á kjörstöðum ekki fullnægjandi fyrir fatlað fólk
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að réttindagæsla fatlaðs fólks hefði orðið þess áskynja að aðstæður á kjörstöðum hefðu ekki verið fullnægjandi fyrir fatlað fólk í kosningunum. Erfitt hefði verið fyrir sumt fatlað fólk að athafna sig í kjörklefa og gátu sumir jafnvel ekki kosið leynilega.
Freyja Haraldsdóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, sagði í samtali við Kjarnann að réttindagæslan væri á vakt á kjördag en hlutverk þeirra er meðal annars að útvega kosningavottorð til þeirra sem geta ekki með skýrum hætti tjáð vilja sinn og þurfa aðstoð í kjörklefa – annað hvort frá kjörstjórn eða manneskju sem fólk velur sjálft.
„Sumir eru búnir að undirbúa þetta fyrirfram en aðrir hafa ekki náð að undirbúa vottorð eða vita ekki að þess þurfi. Þá erum við til taks svo fólk geti pottþétt kosið. Svo erum við líka á vakt til að taka á móti erindum ef fatlað fólk lendir í vandræðum eða vantar upplýsingar,“ sagði hún.
Þrengslin sum staðar of mikil og kjörklefar of litlir
Freyja sagði enn fremur að borið hefði á því að ekki hefði verið nægilega gott aðgengi fyrir fatlað fólk á kjörstöðum, þrengsli hefðu sums staðar verið of mikil og kjörklefar jafnvel of litlir. Hæðin á borðum í kjörklefunum virtust jafnframt ekki verið stillanleg, sem hafði þær afleiðingar að þau hentuðu ekki alltaf fólki sem situr eða liggur í hjólastól.
Hún sagði að henni fyndist óeðlilegt að fylgja ekki lögum sem væru öllum borgurum mjög mikilvæg. „Þetta er ein af grunnstoðum lýðræðisins og ef þetta er ekki í lagi þá er það mjög mikið áhyggjuefni.“
Hún benti enn fremur á og ítrekaði að Íslendingar hefðu undirritað mannréttindasamning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er kveðið á um aðgengi að stjórnmálaþátttöku og aðgengi að lýðræðislegri þátttöku á kosningum. „Þar er mjög skýrt að fólk á að geta valið hver aðstoðar það og fólk á að geta kosið í leynilegum kosningum. Það á að vera öruggt í kosningaþátttöku sinni. Það er grundvallarskylda að stjórnvöld framfylgi því og algjör lágmarkskrafa.“