Lögreglan mun frá 200 milljóna króna viðbótarframlag úr ríkissjóði á næsta ári til að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota og efla forvarnir og þjónustu við þolendur kynferðisbrota í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar, en á bakvið álitið standa nefndarmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Í álitinu segir að kærum til lögreglu vegna kynferðisbrota hafi fjölgað umtalsvert og það sem af er árinu 2021 séu þær 595. Það þýðir að um 1,7 tilkynning hafi borist að meðaltali á hverjum degi yfirstandandi árs. „Í kjölfar aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota sem tók til tímabilsins 2018–2022 voru í fjárlögum fyrir árið 2018 samþykktar tillögur til umtalsverðrar eflingar lögregluembættanna til að mæta þeim áskorunum sem þau stóðu frammi fyrir við rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Sú viðbót dugði ekki til þar sem fjöldi mála jókst umfram þá styrkingu. Efla þarf enn frekar þann mannskap hjá lögreglu og ákæruvaldi sem sinnir meðferð kynferðisofbeldismála auk annarra þátta, svo sem á sviði upplýsingatækni, til þess að ná fram bættum málshraða sem tillögunni er ætlað að mæta.“
Huga þarf að þolendum
Í nefndarálitinu segir að mikilvægt sé að hafa í huga að þörf sé á að hugsa um kerfið í heild sinni þannig það taki til allra áskorana sem meðferð kynferðisbrota feli í sér.
Þar þurfi að hugsa málið frá upphafi með öflugum forvörnum til að koma í veg fyrir brot og stuðla að betra samfélagi. „Þá þarf að huga að þolendum, að þeir fái þá þjónustu sem þörf er á í samræmi við eðli brota, fái faglegt og vandað viðmót innan kerfisins og njóti réttlátrar málsmeðferðar og mál þeirra séu afgreidd innan eðlilegs tíma. Kerfið þarf að geta mætt breyttum þörfum samfélagsins til að sinna þessum málum á fullnægjandi hátt.“
Kynferðisbrotaumræðan hefur verið afar hávær á Íslandi á því ári sem er að líða. Í maí stigu hundruð íslenskra kvenna fram opinberlega og greindu frá kynferðisbrotum gegn þeim í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur sögðu að brotið hefði á sér. Karlar voru í þetta skiptið hvattir til að taka meiri þátt í umræðunni með það fyrir augum að þetta væri samfélagslegt vandamál en ekki einungis kvennavandamál.
Þöggunar- og nauðgunarmenning
Umræðan náði hámarki með KSÍ-málinu svokallaða, þar sem ásakanir um gróf kynferðisbrot voru settar fram gegn þekktum knattspyrnumönnum og stærsta íþróttasamband landsins lá undir ámæli fyrir að hafa þaggað málin niður.
Í skýrslu sem gerð var af úttektarnefnd sem falið var að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands voru gerðar margháttaðar athugasemdir við vinnubrögð KSÍ.
Ákveðnar yfirlýsingar sambandsins á opinberum vettvangi hafi „borið með sér ákveðin merki þöggunar- og nauðgunarmenningar, þar sem því var í reynd hafnað í yfirlýsingunum að mál kvennanna hefðu komið til vitundar KSÍ.“