Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um það í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort hún teldi að það þyrfti ekki að skoða þá atburðarás sem átti sér stað í aðdraganda þess að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra baðst afsökunar á rasískum ummælum fyrr í dag.
Þar vísaði Sigmar til viðbragða Ingveldar Sæmundsdóttur, aðstoðarmanns Sigurðar Inga, sem birtust í kjölfar þess að fyrstu fréttir voru sagðar af ummælum Sigurðar Inga um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Þar var ráðherrann sagður hafa vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“ í samkvæmi á fimmtudagskvöld. Ingveldur vísað því á bug í samtali við DV um helgina að ráðherra hefði notað það orðalag og sagði orðrétt: „Þetta er algjört bull.“
Sigurður Ingi baðst hins vegar afsökunar á ummælunum síðdegis í dag og sagði orðin sem hann hefði notað hafa verið „óviðurkvæmileg.“
Sagði Sigmari að spyrja Sigurð Inga
Sigmar sagði að skoða þyrfti að afsökunarbeiðni Sigurðar Inga í ljósi þeirrar atburðarásar. „Ég velti því fyrir mér hvort að þessi gaslýsing sem að birtist okkur um helgina, hvort hæstvirtur forsætisráðherra svari okkur ekki með aðeins efnismeiri hætti, því eins leiðinlegt og mér þykir að standa hér í þessum ræðustól og tala um þetta þá er það alveg gríðarlega mikilvægt. Verðum við ekki að velta fyrir atburðarásinni áður en beðist var afsökunar og hver er hljómur afsökunarbeiðni þegar aðdragandinn er þessi?“
Gaslýsing er tækni sem á ensku kallast „gaslighting“, Í henni felst að neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig.
Kjarninn hefur reynt að ná sambandi við Ingveldi, Sigurð Inga og Sigtrygg Magnason, hinn aðstoðarmann Sigurðar Inga, í dag vegna málsins en án árangurs.
„Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein“
Vigdís birti stöðuuppfærslu fyrr í dag þar sem hún sagði að „afar særandi ummæli“ hefðu verið látin falla og að hún hefði heyrt þau, sem og fleira starfsfólk Bændasamtakanna.
Hún sagði að hún hefði aldrei talið að hún þyrfti að setjast niður og skrifa yfirlýsingu af þessu tagi. „Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn.“
Í kjölfar hennar birti Sigurður Ingi eigin stöðuuppfærslu og baðst afsökunar.