Ásgeir Sveinsson sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fór í gær. Ásgeir hlaut 697 atkvæði eða 69% gildra atkvæða þegar öll atkvæði höfðu verið talin. Í öðru sæti var Jana Katrín Knútsdóttir og Rúnar Bragi Guðlaugsson hafnaði í þriðja.
Kristín Ýr Pálmarsdóttir, sem sóttist eftir þriðja sæti á lista flokksins í bænum, segir Ásgeir, Rúnar og fleiri hafa smalað atkvæðum. Í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þegar úrslit voru kunn segir hún að fólk sem láti ekki kjósa sig af eigin verðleikum heldi smali fólki í kringum sig sé með minnimáttarkennd. Slíkt fólk er ekki leiðtogar í hennar huga. Kristín er varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ en hefur nú sagt sig úr flokknum. „Ég er búin að segja síðan í nóvember að svona yrðu úrslitin við mitt fólk eftir að hafa unnið með þeim í 4 ár,“ segir Kristín í færslu sinni.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, sem sóttist eftir oddvitasæti í prófkjörinu, segir í athugasemd við færslu Kristínar að hún ætli ekki að kjósa flokkinn í vor. Kolbrún hafnaði í fjórða sæti í prófkjörinu en hún hefur setið í bæjarstjórn frá 2014.
Kristín segir það jákvæða sem kom út úr niðurstöðu prófkjörsins sé að hún þurfi ekki lengur að „starfa með þessum tveimur trúðum“ og á hún þá að öllum líkindum við Ásgeir sem varð í fyrsta sæti og Rúnar Braga Guðlaugsson sem varð í þriðja sæti.
Smölunin hjá Ásgeiri,Runari og Co gekk eftir, fólk sem lætur ekki kjósa sig af eigin verðleikum heldur smalar fólki í...
Posted by Kristín Ýr Pálmarsdóttir on Saturday, February 5, 2022
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn. Eftir úrslit prófkjörsins í gær er ljóst að Ásgeir, sem er bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar, verður bæjarstjóraefni flokksins í sveitarstjórnarkosningum í vor.
Úrslit prófkjörsins voru þessi:
Í fyrsta sæti er Ásgeir Sveinsson með 697 atkvæði með 69% gildra atkvæða.
Í öðru sæti er Jana Katrín Knútsdóttir með 380 atkvæði í 1. – 2. sæti eða 37,6% gildra atkvæða
Í þriðja sæti er Rúnar Bragi Guðlaugsson með 429 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti eða 42,5% gildra atkvæða.
Í fjórða sæti er Kolbrún G. Þorsteinsdóttir með 412 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti eða 40,8% gildra atkvæða.
Í fimmta sæti er Hjörtur Örn Arnarson með 477 atkvæði samanlagt í 1. – 5. sæti eða 47,2% gildra atkvæða.
Í sjötta sæti er Arna Hagalínsdóttir með 437 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti eða 43,3% gildra atkvæða.
Í sjöunda sæti er Hilmar Stefánsson með 497 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti eða 49,2% gildra atkvæða.
Alls greiddu 1.044 atkvæði í prófkjörinu. Gild atkvæði eru 1.010. Auð og ógild atkvæði eru 34.
Uppfært 7. febrúar: Í gærkvöldi, sunnudagskvöld, virtist sem færsla Kristínar hefði verið fjarlægð af Facebook en svo er ekki. Færslan er opin og öllum aðgengileg.