Þetta er tiltölulega ný tilkomið, sagði Kári Stefánsson þegar Kjarninn náði tali af honum síðdegis í dag en Íslensk erfðagreining, fyrirtækið sem Kári veitir forstöðu, færði íslenska ríkinu jáeindaskanna að gjöf en slíkt tæki kostar um 800 milljónir króna. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, veitti gjöfinni viðtöku í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri klukkan 15.
„Það hefur staðið til í þrjár vikur. Ég hef verið að velta fyrir mér möguleikanum á að afla fjár fyrir svona tæki en þessi nálgun sem við höfðum er ekki gömul,“ sagði Kári þegar hann var spurður hversu lengi þetta hafi staðið til.
Kári segir ástæðu gjafarinnar vera augljósa enda sé mikil þörf fyrir svona skanna á Íslandi. Það sé orðið sérstaklega mikilvægt í aðhlynningu krabbameinssjúkra, það sé til dæmis notað til að ganga úr skugga um að krabbameinsmeðferð hafi gengið að óskum. „Það er varla hægt að halda því fram að við séum með nútíma læknisfræði í gangi án þess að hafa svona skanna,“ segir hann.
Íslensk erfðagreining hefur lengi verið framarlega í rannsóknum á afgengum sjúkdómum á borð við Alzheimers-sjúkdóminn. Kári segir tækið mjög mikilvægt við greiningu á þeim sjúkdómi og að það sé „raunverulega óásættanlegt að vera ekki með svona apparat í landinu og erfitt að skilja hvers vegna menn hafa forgangsraðað þannig að það sé ekki nú þegar komið.“
Skanninn nýtist til margvíslegra rannsókna, í greiningu sjúkdóma og eftirfylgni meðferða. (Mynd: EPA)
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur tækið ekki verið pantað og þess vegna erfitt að áætla raunhæfa tímasetningu þess að jáeindaskanninn verði settur í gang. „Ég reikna með því að þetta tæki verði sett inn á ríkisstofnun og þær hreyfa sig jafnan hægar en aðrar stofnanir í samfélaginu þannig að ég get ekki spáð fyrir um hversu langan tíma það tekur,“ segir Kári. „Ég vona að það verði sem allra fyrst.“
Eins og stendur er húsnæði Landsspítalans, þar sem Kári telur að tækið muni vera hýst, ekki undirbúið fyrir svo stórt tæki en með fjárupphæðinni sem Íslensk erfðagreining veitti er peningur eyrnamerktur aðlögun húsnæðis fyrir svona skanna. Kári segir að ekki þurfi að ráðast í nýbyggingar en töluverðrar aðlögunar sé þörf.
Nýtist til rannsókna eins og önnur tæki spítalans
„Það gleymist stundum í öllu þessu að læknisfræðin byggir algerlega, alfarið og eingöngu á niðurstöðum úr rannsóknum af þeirri gerð sem við erum að fást við,“ segir Kári og ítrekar að allar niðurstöður sem koma úr rannsóknum með svona skanna séu niðurstöður sem nýta má til læknisfræðirannsókna.
„Og ég vona að þessi skanni, eins og öll önnur tæki inni á Landspítalanum, búi til niðurstöður sem hægt verður að nýta af okkur og öðrum til að vinna rannsóknir. Ég reikna fastlega með því að þessi skanni komi til með að leggja fram gögn til læknisfræðirannsókna eins og öll önnur tæki Landsspítalans,“ segir Kári.