Petra Bender er textíl- og grafískur hönnuður. Hún er að vinna að fjármögnun fatalínunnar WERQ á Karolina Fund. Kjarninn tók hana tali og forvitnaðist um verkefnið.
https://vimeo.com/129230981
Hefur alltaf verið mikið fyrir íþróttir og fallega hluti
Er einhver hugmyndafræði sem liggur að baki WERQ?
"Eftir að hafa klárað nám í Listaháskólanum í grafískri hönnun, hafði ég þörf fyrir að sjá hönnunina mína á meira heldur en pappír. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á fötum og fann sterkt að það myndi vera næsta skref hjá mér.
Ég hef alltaf verið mikið fyrir íþróttir og fallega hluti. Þegar ég bjó í London, og var í framhaldsnámi í Central Saint Martins í Master í textíl, lifði ég mun hraðari lífstíl heldur en hér heima á klakanum. Þar átti ég ekki pening fyrir íþróttakorti þannig að ég byrjaðu að hlaupa mér til heilsubótar í görðunum í London. Ég heyrði af hlaupahópnum RunDemCrew sem hljóp vikulega frá Nike búðinni 1948 sem er í Shoreditch. Í þessum hlaupahóp er mikið af listrænt þenkjandi fólki og var þetta miklu meira spurning um félagsskapinn heldur en hlaupin sjálf, allavega fyrir mig.
Með þessum hóp ferðaðist ég til New York, Amsterdam, Kaupmannahafnar, Berlínar og Parísar. Við hittum þar aðra Nike hlaupahópa þar sem við enduðum oft í hlaupagallanum á kaffihúsi eða djamminu. Þar kviknaði upp hugmyndin mín um WERQ by Petra Bender.
Mér fannst vanta fatnað sem mér líður alltaf vel í og væri þægilegur og mér liður vel í allstaðar. WERQ er hugsuð sem hágæða fatalína innblásin af virkum lífsstíl. Fatnaður fyrir hreyfingu hvort sem á íþróttavelli, í hverdagslífinu eða á skemmtanalífinu."
Hefur alltaf verið litaglöð
Eru einhverjir litir eða línur áberandi í fatalínunni WERQ?
"Eins og er þá er ég að hugsa um bjarta liti, þar sem ég hef alltaf verið litaglöð. Svo langar mig að leggja áheyrslu á munsturgerð, textíl og áferðina á fötunum. Ég fæ mikinn innblástur fyrir litapælingarnar mínar úr náttúrunni og umhverfinu. Plöntum og blómum úr mismunandi árstíðum. Einnig hefur allskonar arkítektúr, form og litir þeirra í miklu uppáhaldi í bland við allskonar götulist eins og graffíti. Svo sanka ég líka að mér blöðum, frekar gömlum heldur en nýjum. Aðal áherslulitur fyrstu línurnar minnar verður hvítur með ýmsum litasamsetningum."
Hvaðan sækirðu innblástur?
"Ég sæki mest innblásturinn minn á ferð og flugi um stórborgir þar sem er mikið hægt að taka inn bæði úr mannlífi götunnar eða út hljóðlátu umhverfi í náttúru Íslands. Það er svo mismunandi hvaðan ég verð fyrir áhrifum að hönnuninni. Mér finnst gaman að blanda saman ólíkum hlutum.
Ég held líka að það sé alltaf smá fast 80' og 90' andrúmsloft í mér frá hip hoppi RMB-menningunni í bland við hippann og ævintýrakonuna í mér. Þegar að ég var úti var ég lærlingur og síðan freelance hönnuður hjá hönnunarstofunni Hótel Creative. Aðalkúnninn þeirra er Nike. Þar hjálpaði ég mikið við hugmyndavinnu aðal hugmyndastjórans og eiganda fyrirtækisins. Ég er mjög þakklát fyrir þá reynslu, þar sem ég lærði mikið varðandi hönnunarferlið sem ég mun alltaf búa að. Einnig vann ég fyrir fatahönnuði á borð við Peter Jensen og Fred Butler. Maður er samt alltaf að breytast og veit aldrei hvað kemur næst. Línan mín verður hins vegar önnuð úr vönduðum þægilegum efnum og einföldum sniðum."