Óli Gneisti Sóleyjarson er þjóðfræðingur og bókasafns- og upplýsingafræðingur. Hann hefur reynt ýmislegt um ævina en segist fyrir utan fjölskylduna vera hvað einna stoltastur af því að hafa stofnað og rekið Rafbókavefinn í sjálfboðavinnu. Óli Gneisti er að hópfjármagna nýtt spil á Karolina Fund sem heitir "Kommentakerfið". Kjarninn tók Óla Gneista tali og forvitnaðist um verkefnið hans.
https://vimeo.com/136726501
Mjög spenntur fyrir hópfjármögnun
Hvaðan kom hugmyndin að spilinu "Kommentakerfið"?
"Ég hef áður fengið hugmyndir að spilum en aldrei framkvæmt. Það sem er nýtt núna er tilkoma Karolina Fund. Ég er mjög spenntur fyrir svona hópfjármögnun og hef oft stutt slíkt. Ég gæti sjálfur fjármagnað litla prentun af spilinu en með forsölu og styrkjum get ég allavega tvöfaldað magnið sem ég prenta. Það er rétt að benda á að maður verður ekki áskrifandi af peningum með því að fara í hópfjármögnun. Maður verður að vinna grunnvinnuna vel.
Ég er einn skráður fyrir Kommentakerfinu en ég er með ótal hjálparkokka sem hafa aðstoðað mig við hitt og þetta. Allt frá fólkinu sem gaukar að mér athugasemdum og fyrirsögnum yfir í þá sem svara heimskulegum spurningum mínum um bókhald og rekstur.
Hugmyndin um Kommentakerfið kom ekki af himnum. Ég hafði spilað spilið Cards Against Humanity og þótt það skemmtilegt en um leið fannst mér vanta íslenska útgáfu. Ég ákvað að prufa sjálfur að þýða. Það gekk ekkert. Húmorinn í Cards Against Humanity felst í því að búa til ósmekklega fyndnar setningar með eyðufyllingum og íslenskan hentar bara ekkert vel í það. Ég pældi aðeins meira í þessu og það var eitthvað við hugmyndina um ósmekklegan húmor sem leiddi huga minn að athugasemdakerfum vefmiðlana. Þá datt mér í hug að í stað eyðufyllinga þá gæti maður verið með spil með fyrirsögnum og athugasemdum."
Ágúst Þorvaldsson í Nexus. Hægt að skoða Kommentakerfið þar.
Margar athugasemdirnar raunverulegar
Hvernig virkar spilið?
"Spilið virkar í stuttu máli þannig að hver spilari er með 10 "komment" á hendi. Í hverri umferð er einn ritstjóri sem leggur út "fyrirsögn". Hinir spilararnir leggja síðan "komment" í púkkið. Ritstjórinn velur kommentið sem honum þótti skemmtilegast í samhenginu og spilarinn sem lagði það út fær stig."
Hvaðan kom efniviðurinn í spilið?
"Margar af athugasemdunum eru raunverulegar. Reyndar er það augljóslega þannig að sumar voru skrifaðar af fólki sem var augljóslega að grínast en án samhengisins líta þær út fyrir að vera skrifaðar af fólki sem er úr öllum tengslum við raunveruleikann. Önnur komment eru álíka rugluð en skrifuð af fólk sem er fullkomin alvara. Það er líka stórkostlegur sparnaður að þurfa ekki að prófarkalesa athugasemdirnar því stafsetningarvillur og óhefðbundin nálgun á greinamerkjanotkun gerir þetta bara raunverulegra.
Í vali mínu á athugasemdum þá reyni ég að ná þeim sem eru fyndin en ekki of andstyggileg. Spilið snýst náttúrulega um fyndni. Oft ósmekklega."
Andri Þór Sturluson í Spilavinir. Kommentakerfið er til sýnis í versluninni.
Gæti orðið gagnleg samræða um umræður á netinu
Hvað eru mörg "komment" að finna í spilinu?
"Þegar ég ákvað að fara í hópfjármögnun þá ákvað ég að finna leiðir til að verðlauna þá sem taka þátt í söfnuninni. Í grunnspilinu eru 400 spjöld, 320 komment og 80 fyrirsagnir en ef ég næ viðbótartakmörkum mínum þá er hægt að fjölga þeim. Þannig þýðir hærri upphæð ekki bara að peningarnir komi til mín heldur fá kaupendurnir eitthvað aukalega."
Fyrir hvaða aldurshóp er "Kommentakerfið" hugsað?
"Ég hélt að ég þyrfti að setja hátt aldurstakmark á spilið en síðan spilaði ég það með litlu frænkum mínum og endaði með að setja viðmið um að það sé fyrir þrettán ára og eldri. Yngri krakkar geta auðvitað spilað það en þá mæli ég með að fullorðnir fylgist með. Þá held ég að þetta geti bara verið gagnleg samræða um umræður á netinu. Ég komst líka fljótt að því að spilið virðist henta öllum hópum sem vilja hlæja saman."
Hér er hægt að skoða verkefnið nánar og styrkja.