Til stendur að setja upp enska uppsetningu á verðlaunaútvarpsleikritinu ‘Spor’ eftir Starra Hauksson, undir nafninu ‘Moments’. Teymið samanstendur af þeim Sindra Swan, Völu Fannel, Sigga Hólm, Braga Árnasyni og Aroni Trausta og Maya Lindh. Kjarninn hitti Sindra Swan og tók hann tali.
1. Um hvað fjallar verkið ‘Moments'?
'Moments’ fjallar um Andra sem í kjölfar þungs missis hefur lokað sig af og að því er virðist misst allan lífsvilja. Verkið snertir á þáttum eins og fjölskyldu, missi og fyrirgefningu um leið og það afhjúpar varnarleysi sálarinnar sem og óstöðugleika tilfinningalífsins. Engu að síður er það leitt áfram af undirbáru vonar og væntumþykju.
2. Hvernig varð þessi leikhópur til?
Af einbeittum vilja til að skapa list. Leiklistarheimurinn er ekki stór og oft lítið um bitastæð verkefni, svo við sköpum okkar eigin. Einnig þjáumst við af gríðarlegri forvitni um mannlegt eðli og þar af leiðandi spyrjum við margra spurninga með þeim tilgangi að skapa leikverk sem eru ekki bara skemmtiefni heldur eitthvað sem skipt getur sköpum í lífi áhorfandans.
Moments | Teaser from Simple Life Productions on Vimeo.
Við í Moments-teyminu erum mestmegnis Íslendingar, en leikstjórinn í þessu verkefni er sænsk. Við eigum það öll sameiginlegt að við lærðum bæði leiklist og leikstjórn í sama skólanum hér erlendis, The Kogan Academy of Dramatic Arts og mynduðum með okkur sterk tengsl á meðan þeim tíma stóð. Leikhópurinn samanstendur af StepbyStep Productions rekið af Völu Fannell Simple Life Productions rekið af Maya Lindh og Sigga Hólm. Verkefnið kom til þegar Aron Trausti var að leita sér að leikverkefni og ‘Spor' eftir Starra Hauksson kom upp á borðið. Hann lagði strax í að þýða það.
3. Hvers vegna London?
London er aðeins sú borg sem það vill svo til að við erum öll í á þessum tímapunkti - Hér er mikil blanda mismunandi menningarheima og þar af leiðandi mikið af fjölbreytum tækifærum í boði fyrir þá sem eru reiðubúnir að vinna fyrir því. En öll viljum við bæði starfa á heimaslóð sem á erlendri grundu!
4. Verkið tekur á ýmsum tilfinningum. Var eitthvað sem kom ykkur á óvart í uppfærslunni?
Það sem verkið ber mjög skýrt fram er að það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum, stundum þrjár. Það er ekkert fórnarlamb, það er enginn blórabögull. Við verðum öll að bera ábyrgð á okkar hlut í hvaða máli sem gæti komið upp. Allir gera mistök. Eftir það er það bara spurning hvort við getum fyrirgefið öðrum og ekki síður, fyrirgefið sjálfum okkur.