Þegar Snævar Sölvason var hálfnaður með námið sitt í Kvikmyndaskóla Íslands ákvað hann að láta draum sinn rætast og búa til bíómynd. Hann skrifaði handritið og safnaði saman hópi af hæfileikaríku fólki. Eftir að hafa tekið upp kvikmynd í fullri lengd þarf hópurinn nú aðstoð við að klára eftirvinnsluna svo myndin komist í kvikmyndahús í sumar.
Kjarninn ræddi við Ævar Örn Jóhannsson leikara og framleiðanda kvikmyndarinnar ALBATROSS.
https://www.youtube.com/watch?v=AYreFjw7YpA
Lét draum rætast
Hvaðan kemur hugmyndin að kvikmyndinni ALBATROSS?
"Hugmyndin kemur úr kollinum hans Snævars Sölvasonar sem bæði skrifaði handritið og leikstýrði myndinni. Þegar hann var í sumarfríi frá Kvikmyndaskóla Íslands þá ákvað hann að taka málin í sínar eigin hendur og bara láta drauminn rætast með því að búa til bíómynd í stað þess að leita að sumarvinnu enn eitt árið. Hugdetta sem vatt fljótt uppá sig og lauk öllum undirbúningi og tökum þarna um sumarið.
Nú erum við í óða önn að safna fyrir þeirri tæknivinnslu sem eftir er, t.d. hljóð- og myndvinnslu, í gegnum Karolina Fund. Allir sem vilja geta þar lagt okkur lið og fengið bíómiða á forsýninguna og margt fleira skemmtilegt að launum. Stefnan er svo sett á að frumsýna þennan "feel good" sumarsmell í lok maí."
Eru til fyrirmyndir að persónunum?
"Það er nú oft þannig þegar maður kemur úr litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla að maður nýti sér ýmsa kynlega kvisti frá hinum og þessum karakterum. Þá á það jafnvel við fyrir leikarana í þeirra persónusköpun sem og við handritaskrifin sjálf. Lítið verður þó látið uppi með það þó að einhverjar skemmtilegar tengingar sé eflaust hægt að finna enda misjafnt hvað fólk rýnir í. Mætti segja að ákveðnir karakterar í myndinni og margar aðstæður líka ef út í það er farið, séu eitthvað sem flestir ættu að geta tengt eitthvað við úr sínu daglega lífi. Allt er þó í góðu gamni gert enda væri heimurinn ekki jafn litríkur ef við værum öll eins.
Ætli Snævar hafi ekki einna mest sniðið aðalkarakterinn Tomma svolítið að sjálfum mér í bland við að vera smá raunasaga frá honum sjálfum. Það hefur hann gert til að nýta sér ákveðna og sérstæða kosti við kvikmyndagerðina eins og t.d. svifvængjaflugið (e. paragliding) sem ég er nokkuð viss um að hafi aldrei birst í íslenskri kvikmynd áður."
Vel samanpúslaður hópur
Segðu mér aðeins frá hópnum sem stendur að ALBATROSS.
"Glæsilegur hópur í alla staði og valinn maður og kona í hverju rúmi. Forsprakkinn að þessu öllu púslaði saman vel völdum einstaklingum úr hinum og þessum áttum og náðu allir einstaklega vel saman þó margir væru að hittast í fyrsta skipti þarna við tökur. Nokkrir sem voru með Snævari í kvikmyndagerðarnáminu, bæði tæknifólk og leikarar, aðrir úr hans nánasta umhverfi og margir að stíga sín fyrstu skref í svona stóru verkefni. Svo bjuggum við svo vel að því að Pálmi Gests, sem hefur heimsótt flest heimili landsins í gegnum skjáinn, er einmitt frá Bolungarvík og ákvað að taka slaginn með okkur í mjög áhugaverðu hlutverki. Það er mikill lærdómur sem maður getur dregið frá svoleiðis sleggju sem þekkir bransann út og inn.
Núna reynum við bara öll eins og áður segir að fá fólk til að leggja hönd á plóg til að klára þessa mynd og koma henni í bíó. "
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér