Bíó Paradís vill bæta aðgengi fólks í hjólastólum að bíóinu. Kjarninn ræddi við Hrönn Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Bíó Paradís, um söfnun fyrir hinu bættu aðgengi sem nú stendur yfir á Karolina Fund. Og ýmislegt fleira tengt bíóinu.
Hver er hugmyndafræðin á bakvið Bíó Paradís?
"Bíó Paradís – Heimili kvikmyndanna var stofnað árið 2010 af fagfélögunum í kvikmyndagerð og rekur fyrsta og eina kvikmyndahúsið á menningarlegum forsendum á Íslandi. Tilgangur félagsins er að efla og styðja við kvikmyndamenningu og kvikmyndafræðslu á Íslandi. Félagið er rekið án hagnaðarsjónarmiða, öll stjórnarstörf eru unnin í sjálfboðavinnu og fjölmargir kvikmyndagerðarmenn koma að starfi bíósins í sjálfboðavinnu."
Hvernig bíómyndir eruð þið að sýna?
"Bíó Paradís sýnir listrænar kvikmyndir frá öllum heimshornum, klassískar myndir, költ myndir, heimildamyndir og stuttmyndir. Bíóið er mjög mikilvægur vettvangur fyrir íslenskt kvikmyndaefni sem ratar ekki í hin hefðbundnu afþreyingarbíó, einsog heimildamyndir, stuttmyndir, tilraunaverk og fleira. Einnig sýnir Bíó Paradís allar íslenskar kvikmyndir með enskum texta. Bíó Paradís er einnig vettvangur fyrir kvikmyndaviðburði á vegum erlendra sendiráða, menningarstofnana og áhugamannasamtaka.
Húsið hýsir reglulega kvikmyndadagskrá í tengslum við ýmsa viðburði í Reykjavík og félagið rekur tvær kvikmyndahátíðir, Alþjóðlega barnakvikmyndahátíð og Stockfish kvikmyndahátíðina. Við leggjum líka mikla áherslu á fræðslu og Bíó Paradís býður uppá kennslu í kvikmyndafræðslu fyrir alla grunnskóla og framhaldsskóla borgarinnar auk fyrirlestra, spurt og svarað og örnámskeiða með fagfólki í greininni. Yfir 22.000 leik,- grunn- og framhaldsskólanemar hafa komið í Bíó Paradís í kvikmyndafræðslu."
Hver er ykkar helsti markhópur?
"Það eru í rauninni allir landsmenn, því hóparnir eru jafn margir og myndirnar sem við erum að sýna. Við sögðum einu sinni að bíóið væri fyrir alla á höfuðborgarsvæðinu en nú erum við farin að taka færanlega sýningarbúnaðinn okkar hringinn um landið á vorin og halda bíósýningar, svo að það hafa fleiri landsmenn tækifæri til að upplifa Bíó Paradís, kvikmyndafræðslu og myndirnar sem við erum að sýna. Bíó Paradís er ekki bara listrænt bíó heldur líka öðruvísi og skemmtilegt bíó, og við viljum að allir finnist þeir velkomnir og hafi eitthvað að sækja í Bíó Paradís."
Þið voruð að hleypa af stað verkefni á Karolina Fund að bæta aðgengi fatlaðra að bíóinu, hvaða hópur stendur að verkefninu og hvernig lýsir það sér?
"Þeir fjölmörgu kvikmyndagerðarmenn sem koma að stjórn og starfsemi bíósins í sjálfboðavinnu standa á bak við verkefnið, auk velgjörðaraðila eins og verkfræðistofunnar Mannvits sem hefur aðstoðað okkur við útfærsluna á þessu. Við erum að vinna í húsi sem er engan veginn hannað með aðgengi fatlaðra í huga, og við höfum lengi vitað að við þyrftum að fara í kostnaðarsamar aðgerðir til að breyta því.
Við höfum unnið með fagaðilum til þess að gera áætlanir um að gera húsið aðgengilegt öllum, óháð hreyfihömlun og höfum stofnað til söfnunar á Karolina fund síðunni til að fjámagna þessar breytingar. Við vonum að sem flestir geti lagt okkur lið og gert kostakaup í leiðinni, því við lofum áfram frábærri og fjölbreyttri dagskrá í Bíó Paradís. Það er til dæmis hægt að kaupa bara tvo venjulega bíómiða á 2.250 kr, klippikort á 4.500 kr. eða árskort á 13.500 kr og styðja þannig verkefnið. Eða þá gerast bakhjarl og vera sérstakur heiðursgestur okkar! Það eru mjög góð kaup í þessu og það ættu allir að geta fundið sér skemmtilega viðburði við sitt hæfi hjá okkur í vetur."