Reidmenn.com er samvinnuverkefni fjölskyldu Reynis Aðalsteinssonar. Verkefnisstjórn er aðallega í höndum Soffíu Reynisdóttur, margmiðlunarhönnuðar, sem með stuðningi systkina sinna, vina og vandamanna vinnur að því að þróa kennsluvef fyrir hestamenn byggðan á hugmyndafræði föður síns. Kjarninn hitti Soffíu Reynisdóttur og tókum hana tali.
https://vimeo.com/115513188
Segðu okkur frá verkefninu sem þið eruð að hópfjármagna á Karolina Fund?
"Verkefnið Reidmenn.com er samvinnuverkefni fjölskyldunnar. Við systkinin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp á heimili hugsjónamanns. Alla ævi höfum við tekið þátt í skemmtilegum verkefnum sem unnin hafa verið af hugsjón og vilja til að læra og verða betri.
Þetta lærðum við af föður okkar, hann vaknaði snemma á morgnana og var sestur við skriftir fyrir allar aldir til að festa nýjar hugmyndir á blað. Hann var alltaf á undan sinni samtíð og með hugann við nýja hluti. Við erum núna að halda áfram þeirri vinnu, framkvæma það sem við vorum að vinna að með honum þegar hann féll frá. Koma á framfæri hugsjónum sem okkur eru í blóð borin og við ólumst upp við.
Reynir Aðalsteinsson.
Verkefnið reidmenn.com á sér samt langa sögu, þróun efnisins nær áratugi aftur í tímann og gegn um árin hefur fjöldi manns komið að því með einum eða öðrum hætti með Reyni og fjölskyldu hans. Við fengum styrk frá Framleiðnisjóði sem hjálpaði mikið og við gátum sett verkefnið í gang fyrir alvöru en það er gríðarlega umfangsmikið svo við ákváðum að setja af stað söfnun á Karolina Fund. Það er heilmikil myndvinnsla og svo ekki síst þýðingar á fleiri tungumál svo vefurinn nýtist hestamönnum erlendis líka. Ef okkur gengur vel að fjármagna þá getum við unnið þessa þætti hraðar og aukið við. Við erum nefnilega með fulla kistu af hugmyndum að nýju efni sem okkur langar að vinna og setja á vefinn.
Hvert framlag hjálpar og eftir því sem okkur gengur betur að fjármagna þeim mun meira getum við gert og þeim mun öflugri verður vefurinn fyrir notendur."
Nota hestvænar aðgerðir við tamningar og þjálfun
Hvernig virkar þessi kennsluvefur og hver er hugmyndafræðin á bakvið hann?
"Reidmenn.com er kennsluvefur fyrir hestamenn byggður á hugmyndafræði Reynis Aðalsteinssonar. Vefurinn mun innihalda stigskipt námsefni, eitthvað fyrir alla, byrjendur sem lengra komna og upplýsingar um kennara, námskeið og staði. Við viljum gera það auðvelt að finna það sem hentar hverjum og einum og hjálpa reiðkennurum að koma sér á framfæri.
Sú hugmyndafræði sem liggur að baki er að nota hestvænar aðferðir við tamningar og þjálfun; léttleika, næmni og nákvæmni í vinnubrögðum og samskiptum við hesta og alltaf að hafa eðli og skynjun hestsins í huga. Við viljum nýta gamlar hefðir í bland við nútíma þekkingu, nýta það besta af gömlu og nýju, læra meira og leitast við að bæta samband manns og hests."
Hvernig sérðu fyrir þér að kennsluvefurinn muni nýtast fólki?
"Vefurinn á að geta nýst kennurum sem kennslutæki, nemendum sem uppspretta fróðleiks svo þeir geti annað hvort undirbúið sig fyrir reiðtíma hjá kennara og ef þeir hafa ekki aðgang að reiðkennara geti samt fræðst og æft sig og orðið betri hestamenn.
Það eru svo margir sem stunda hestamennsku en hafa ekki tök á að fara í skóla til að læra það en vilja samt verða betri reiðmenn. Við viljum gera fróðleik aðgengilegan fyrir alla."