„Ég vil ekki líta svo á að löggjafinn hafi gert mistök,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um setningu nýrra sóttvarnalaga sem samþykkt voru samhljóða á Alþingi í byrjun febrúar síðastliðnum. Þetta kom fram í viðtali við Katrínu í Kastljósi á RÚV í kvöld.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að lagastoð skorti fyrir því að skylda alla farþega sem koma frá háhættusvæðum í sóttkví á sóttkvíarhólteli. Reglugerð hafði verið sett til að koma hinu ólögmæta fyrirkomulagi á. Í kjölfarið bauðst öllum að þeim sem úrskurðurinn náði til ljúka sóttkví annars staðar, hafi þeir viðundandi aðstöðu til þess. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur í samráði við heilbrigðisráðuneytið ákveðið að vísa úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, um að ekki megi skikka fólk í sóttvarnahús, til Landsréttar.
„Ég tel mikilvægt að lagagrundvöllur verði tryggður svo hægt verði að vernda heilsu þjóðarinnar sem mest,“ sagði Þórólfur sem hefur skorað á stjórnvöld að tryggja hann. Ekki reyndist samstaða innan velferðarnefndar um hvað gera skuli vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.
Katrín sagði í Kastljósi að niðurstaða héraðsdóms væri vonbrigði. Markmið stjórnvalda væri skýrt, að verja líf og heilsu landsmanna á meðan á faraldrinum stæði. Það hefði verið mjög góð samstaða innan ríkisstjórnarinnar um aðgerðir undanfarið ár. Reglugerðin sem skikkaði fólk í sóttkví í sóttvarnarhúsi hafi verið tekið fyrir í ríkisstjórn og í ráðherranefndum með embættismönnum. Ekki hafi verið uppi ágreiningur í ríkisstjórn um setningu reglugerðarinnar.