Stærstu svokölluðu áhrifavaldar heims fá greitt fyrir flest það sem þeir klæðast, borða og bera á sig og á sér. Kim Kardashian, ein allra stærsta stjarnan í þessum bransa, er þar engin undantekning en með því að auglýsa fjárfestingar með rafmynt kom hún sér hins vegar í klandur. En þó ekki meira en svo að hún gat ekki borgað sig út því.
Klandrið er tilkomið vegna þess að það gilda alveg sérstakar reglur vestanhafs um hvernig má auglýsa fjárfestingar. Og þegar Kardashian ýtti að fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum „viðskiptatækifærum“ tengdum rafmynt braut hún gegn þessum reglum – fyrst og fremst vegna þess að ekki fylgdi sögunni að hún fengi greitt fyrir auglýsinguna.
Málið endaði á borði öryggis- og viðskiptanefndar, The Securities and Exchange Commission (SEC), nefndar á vegum hins opinbera sem fylgist grannt með viðskiptaháttum hverskonar. Kardashian og nefndin hafa nú náð sáttum sem fela í sér að stjarnan greiðir 1,26 milljónir dala, 182 milljónir króna, í sekt.
Þegar EthereumMax kom á markað í maí í fyrra hóf fjöldi þekktra einstaklinga að vekja athygli á fjárfestingartækifærum tengdum rafmyntinni. Í júní sama ár birti Kim Kardashian færslu á Instagram um hversu góð fjárfesting fælist í EthereumMax. Nú hefur komið á daginn að hún fékk 250 þúsund dollara, um 36 milljónir króna, fyrir. Upplýst hefur verið að greiðslan hafi borist henni í gegnum „milligöngumann“.
„Þetta er ekki fjármálaráðgjöf,“ sagði Kardashian á Instagram, „en ég er að deila því sem vinir mínir hafa sagt mér um EthereumMax!“
Öryggis- og viðskiptanefndin hefur ítrekað varað fólk við slíkum auglýsingum og einnig um hríð varað þekkt fólk við að taka þátt í að auglýsa fjárfestingartækifæri tengd rafmynt. Slíkt þurfi að gera að vandlega athuguðu máli og með ýmsa fyrirvara fyrir neytendur í farteskinu.
„Mál Kardashian ætti að vera öðru þekktu fólki víti til varnaðar og minna það á að samkvæmt lögum verður það að gefa almenningi upplýsingar um hvenær og hversu mikið það fær greitt þegar það kynnir fjárfestingaboð sem þessi,“ segir í tilkynningu frá nefndinni.
Sáttargreiðslan sem Kardashian þarf að greiða þykir ekki há en formaður öryggis- og viðskiptanefndarinnar segir að hún hafi verið samstarfsfús og sýnt í verki að hún vildi aðstoða við rannsókn málsins.