Nágrannaríkin Kína og Norður-Kórea ætla að opna viðskiptastöð syðst á landamærum sínum í hafnarborginni Dandong. Þetta hefur Reuters eftir ríkisfréttamiðlum í Kína í dag.
Opnun viðskiptastöðvar milli landanna er meðal nýjustu aðgerða ríkjanna til að efla efnahagsleg tengsl þrátt fyrir aukna spennu milli landana að undanförnu. Viðskiptahliðinu er ætlað að opna í október en áætlunin hefur þegar verið samþykkt af borgaryfirvöldum í Dandong.
„Íbúar á innan við 20 kílómetra svæði frá landamærunum verður gert kleift að versla tollfrjálst við íbúa í Norður-Kóreu. Hámarksdagsverslun eru 8.000 kínversk júan [um 170.000 íslenskar krónur],“ segir í frétt kínverskrar fréttaveitu.
Kína er helsta viðskiptaland Norður-Kóreu sem er annars mjög einangrað á alþjóðavettvangi. Kommúnistastjórnin í Sovétríkjunum studdi ávallt vel við félaga sína í Norður-Kóreu en eftir fall Sovétríkjanna árið 1990 hefur kommúnistaflokkurinn í Noður-Kóreu helst leitað til Kína.
Samband Kína og Norður-Kóreu hefur hins vegar stirðnað undanfarin ár eða síðan Kóreumenn hófu að gera tilraunir með kjarnavopn. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt tilraunirnar og aðildarlönd hert viðskiptaþvinganir á Norður-Kóreu. Á sama tíma hefur Kína styrkt tengsl sín við Suður-Kóreu, sem er fjóprða stærsta hagsvæði í Asíu.