Virði rafmyntarinnar Bitcoin fór niður fyrir 30 þúsund Bandaríkjadali, um 3,7 milljónir króna, í dag í fyrsta skipti í fimm mánuði. Síðustu viku hefur virðið verið í miklum lækkunarfasa en fyrir viku síðan stóð virði myntarinnar í um og yfir 40 þúsund dölum, sem samsvarar tæpum fimm milljónum króna. Til marks um óstöðugleika í virði myntarinnar þá óx það um meira en 10 prósent á tveimur klukkutímum nú síðdegis í dag úr tæpum 29 þúsund dölum upp í rúmlega 32 þúsund dali. Lækkun dagsins gekk þannig til baka en það breytir því ekki að virði myntarinnar hefur lækkað um hátt í fjórðung á síðustu viku. Hæst fór virði myntarinnar í apríl á þessu ári þegar það stóð í tæpega 65 þúsund dölum.
Fjallað er um virðisrýrnun rafmyntarinnar á vef BBC í dag. Þar segir að lækkunina megi að stórum hluta rekja til Kína. Þarlend stjórnvöld hafa á undanförnum dögum hert tökin á greftri myntarinnar sem og notkun hennar í viðskiptum. Forsvarsmenn kínverskra banka hafa á undanförnum dögum verið boðaðir til fundar í kínverska seðlabankanum og þeir beðnir um að stemma stigu við viðskiptum með rafmyntina.
Bankarnir hafa ýmist heitið því að hætta alfarið viðskiptum með Bitcoin eða að láta þá sem hyggjast nota myntina gangast undir áreiðanleikakönnun, til að koma í veg fyrir ólögleg viðskipti. Þá hefur greiðslumiðlunin Alipay, sem er hluti af Ant Group, heitið því að koma upp kerfi sem mun hafa eftirlit með viðskiptum með rafmyntum.
Grípa til aðgerða gegn greftri Bitcoin
Í fyrra urðu um 65 prósent nýrra Bitcoin rafmynta til í Kína. Myntin verður til með aðferð sem líkt hefur verið við námugröft, nema hvað að tölvubúnaður sér um námugröftinn sem er í formi flókinna stærðfræðidæma. Þessi gröftur er einkar orkufrekur og með tíð og tíma verða jöfnurnar sem tölvurnar þurfa að leysa stöðugt flóknari og um leið orkufrekari. Í tengslum við þennan námugröft hafa risið gagnaver sem sum hver sinna slíkum námugreftri.
Nú fyrir helgi tilkynntu yfirvöld í Sichuan héraði um lokun 26 slíkra gagnavera. Sichuan er í öðru sæti á lista yfir þau héruð í Kína sem framleiða mest af Bitcoin. Í umfjöllun BBC segir rafmyntaiðnaðurinn í héraðinu hafi byggst upp vegna þess hve margar vatnsaflsvirkjanir sé þar að finna en eins og áður sagði er rafmyntagröftur einkar orkufrekur.
Lokun gagnaveranna í Sichuan er liður í aðgerðum kínverskra stjórnvalda til að herða tökin á rafmyntum sem kynntar voru í síðasta mánuði. Stjórnvöld vilja með því draga úr þeirri áhættu sem kann að fylgja myntinni. Þar í landi hafi lítið eftirlit verið haft með myntinni og hún notuð í viðskiptum á svarta markaðnum, í peningaþvætti, vopnaviðskiptum, veðmálastarfsemi og í viðskiptum með eiturlyf, líkt og segir í frétt Reuters.