Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að leyfa pörum að eignast tvö börn. Síðan á áttunda áratugnum hefur kínverskum pörum aðeins verið leyft að eignast eitt barn, til að koma í veg fyrir stjórnlausa fólksfjölgun í landinu.
Þetta var ákveðið á þingi Kommúnistaflokksins sem öllu ræður í Kína. Síðast voru barneignareglur í Kína endurskoðaðar árið 2013 þegar ákveðið var að leyfa fólki að eignast meira en eitt barn ef pörin uppfylltu ákveðin skilyrði. Barneignareglurnar eru nú taldar takmarka fjölda fólks á atvinnumarkaði.
Árið 2012 lækkaði meðalaldur vinnuaflsins í Kína í fyrsta sinn í marga áratugi. Þessi fjölmennasta þjóð í heimi gæti orðið fyrsta þjóðin í sögunni sem verður of gömul áður en hún getur orðið rík. Ákvörðun flokksstjórnarinnar nú var tekin á fundi sem fjallaði um efnahagslegar umbætur og áætlun kínverskra stjórnvalda næstu fimm árin.
Wang Feng, sérfræðingur í mannfjöldafræði og félagslegum umbótum í Kína, lætur hafa efitr sér á vef Reuters að um sögulegan viðburð sé að ræða. „Þetta er áfangi sem við höfum beðið eftir lengi, áfangi sem við höfum beðið of lengi eftir,“ sagði Feng.