Kínversk stjórnvöld hafa ekki aðeins brugðist við hruni á hlutabréfamarkaði heima fyrir og versnandi hagtölum, með örvunaraðgerðum, heldur beinast nú spjótin að einstaklingum sem eru sagðir hafa verið að breiða út „orðróm“ um slæma stöðu kínverska hagkerfisins. Samtals liggja 197 einstaklingar undir grun yfirvalda, sem heita þungum refsingum að því er fram kemur á vef New York Times. Engar frekari upplýsingar fást um málið, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC, en ríkisfjölmiðillinn Xinhua greindi fyrst frá málinu.
Blaðamenn og starfsmenn kauphallarinnar í Shanghai eru á meðal þeirra sem kínversk stjórnvöld telja að hafi kerfisbundið skapað neikvæðan orðróm til þess að skaða ímynd kínverska hagkerfisins.
Þá telja stjórnvöld einnig að þessi hópur manna hafa borið út ósannan orðróm um sprengingarnar í Tianjin, en þá dóu 150 manns í öflugum sprengingum á iðnaðarsvæði í þessari næst stærstu borg Kína. Mörg hundruð til viðbótar slösuðust, en rannsókn á orsök sprenginganna stendur enn yfir.
Samkvæmt umfjöllun BBC geta einstaklingarnir átt von á því að fá allt að þriggja ára fangelsi, samkvæmt lögum frá 2013, en eins og áður segir hafa ekki frekari upplýsingar verið veittar um meintar sakir eða rannsóknina.
China punishes 197 over stock 'rumours' http://t.co/uRRoPNgIez
— BBC News (World) (@BBCWorld) August 30, 2015
Mikill glundroði hefur einkennt verðbréfamarkaði í Kína í sumar, og hefur virði hlutabréfa hríðfallið á undanförnum mánuðum eftir miklar hækkanir mánuðina á undan. Þá hafa aðgerðir stjórnvalda í Kína, til þess að koma á stöðugleika á markaðnum, ekki gengið vel. Meðal þess sem gripið var til, var að skylda hluthafa og fjárfesta til þess að kaupa hlutabréf og banna sölu á bréfum tímabundið. Þetta virkaði ekki vel, og hafa kínversk stjórnvöld nú hætt við áætlanir sem byggðu á þessum aðferðum.