Kjálkanes hagnaðist um 11,8 milljarða króna í fyrra. Fjárfestingatekjur félagsins á árinu 2021 voru 11,8 milljarðar króna, sem er 10,6 milljörðum krónum meiri slíkar tekjur en Kjálkanes hafði á árinu 2020. Hagnaður félagsins jókst um 10,7 milljarða króna milli ára og skýrist sú aukning fyrst og fremst af söluhagnaði hlutabréfa í Síldarvinnslunni á síðasta ári, en Kjálkanes er enn annar stærsti eigandi hennar. Síldarvinnslan var skráð á markað á árinu 2021 og samhliða þeirri skráningu seldi Kjálkanes bréf fyrir alls 17 milljarða króna, en bókfærður söluhagnaður var níu milljarðar króna.
Eignir Kjálkanes voru 28,5 milljarðar króna í lok síðasta árs. Þær jukust um 9,9 milljarða króna milli ára. Bókfært eigið fé var 25,5 milljarðar króna um liðin áramót og eiginfjárhlutfallið, þar sem félagið skuldar afar lítið, var 89,2 prósent. Eigið fé Kjálkanes jókst um 82 prósent milli ára, eða um 11,4 milljarða króna.
Þetta kemur fram í nýlega birtum ársreikningi Kjálkaness. Stjórn félagsins lagði til að greiddur yrði út tveggja milljarða króna arður til hluthafa á árinu 2022 á grundvelli þessarar frammistöðu.
Eiga í Síldarvinnslunni og Sjóvá
Hluthafarnir eru tíu talsins, en félagið er frá Grenivík. Á meðal þeirra er Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, en aðrir hluthafar eru fólk sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Systkinahópurinn á 8,67 prósent hlut hver. Stærstu einstöku eigendurnir eru Ingi Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins, og Anna Guðmundsdóttir, sem eiga 22,54 prósent hlut hvor. Bæði Ingi og Anna sitja í stjórn Síldarvinnsliunnar
Rauk upp vegna loðnu
Síldarvinnslan, stærsta eign Kjálkaness, var skráð á markað í maí í fyrra. Miðað við útboðsgengi var virði hennar 101,3 milljarðar króna við skráningu. Það hefur hækkað gríðarlega síðan þá, en við lok viðskipta í gær var félagið metið á 160 milljarða króna.
Sú mikla hækkun sem varð á bréfum í félaginu hófst af alvöru í fyrrahaust í aðdraganda þess að tilkynnt var um úthlutun á 904 þúsund loðnukvóta, þeim mesta sem úthlutað hafði verið í tvo áratugi. Síldarvinnslan var á meðal þeirra útgerða sem fengu mest úthlutað, eða 18,5 prósent alls kvóta sem fór til innlendra aðila.
Þann 23. september 2021 var markaðsvirði félagsins tæplega 116 milljarðar króna. Næstu vikuna hækkaði virði bréfa í Síldarvinnslunni um tæp 13 prósent og daginn áður en tilkynnt var um loðnukvótann var markaðsvirðið rúmlega 130 milljarðar króna. Daginn eftir, þegar tilkynnt var um umfang úthlutaðs loðnukvóta, hækkuðu bréfin um níu prósent.
Í dag er markaðsvirði Síldarvinnslunnar, líkt og áður sagði, 160 milljarðar króna og hefur hækkað um 44 milljarða króna frá 23. september 2021.