Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur nú að útfærslu á því hvaða verkefni tengd jarðgasi og kjarnorku verði skilgreind sem „grænar fjárfestingar“. Ríkisstjórnir landa innan sambandsins hafa í mörg ár tekist á um hvaða fjárfestingar séu raunverulega umhverfisvænar.
Í frétt Reuters um málið segir að framkvæmdastjórnin ætli að leggja fram tillögur að reglum hvað þetta varðar þegar í þessum mánuði. Nýjar skilgreiningar munu skera úr um hvaða verkefni tengd gasi og kjarnorku gætu orðið hluti af „sjálfbærum fjárfestingum“ innan ESB. Á þann lista kemst aðeins sú starfsemi sem stenst ákveðin fjárhagsleg og umhverfisleg viðmið og er þar með flokkuð sem græn fjárfesting. Grænu fjárfestingarverkefnin eiga að laða að fjármagn, bæði opinbert og úr einkageiranum og koma í veg fyrir það sem kallað hefur verið „grænþvottur“, er fyrirtæki ýkja með ýmsum ráðum raunverulegt framlag sitt til umhverfisins.
Í frétt Reuters er vitnað til draga að áformunum sem fréttastofan hefur undir höndum. Samkvæmt þeim gæti kjarnorkuver flokkast sem græn fjárfesting ef fyrirtækið er með áætlanir, fjármagn og stað til að farga með öruggum hætti geislavirkum úrgangi.
Að sama skapi gæti fjárfesting í gasiðnaðinum einnig flokkast sem græn ef þau koma í staðinn fyrir meira mengandi jarðefnaeldsneytisver og ef útblástur þeirra á koltvísýringi er undir ákveðnum viðmiðunarmörkum, mun þrengri mörkum en þau búa almennt við í dag.
Í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórn ESB um málið kemur fram að þegar tekið sé tillit til framfara í vísindum og tækni sem miða að því að draga úr áhrifum á umhverfið hafi jarðgas og kjarnorka hlutverki að gegna á meðan breytingar í átt að mun meiri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa eru að eiga sér stað. Aðildarríki ESB eru misjafnlega í sveit sett hvað varðar tækifæri til orkuöflunar. Á meðan jarðgas er enn undirstaða í orkuframleiðslu sumra eru önnur á góðri leið að því marki að styðjast fyrst og fremst við endurnýjanlega orkugjafa.