Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, hefur ákveðið að sækjast eftir öðru sæti á lista Vinstri grænna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í komandi kosningum. Hann var í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum 2017 á eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Kolbeinn ákvað fyrr á þessu ári að færa sig um set fyrir kosningarnar í haust og sækjast eftir því að verða nýr oddviti Vinstri grænna í Suðurkjördæmi. Flokksmenn þar höfnuðu honum hins vegar og Hólmfríður Árnadóttir varð í efsta sæti í forvali þar. Kolbeinn lenti í fjórða sæti sem hefði þýtt að hann ætti enga möguleika á áframhaldandi þingsetu.
Í gær tilkynnti Kolbeinn að hann hefði ákveðið að þiggja ekki sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi og í dag barst yfirlýsing þess efnis að hann ætlaði sér að reyna fyrir sér í forvalinu í Reykjavík.
Í yfirlýsingunni segir Kolbeinn meðal annars: „Yfirlega síðustu vikna hefur fært mér enn frekar heim sanninn um það, sem þó hefði átt að vera mér ljóst, að ég brenn enn fyrir pólitík. Ég hef löngun og vilja til að halda áfram að starfa með því góða fólki sem hefur leitt hreyfinguna og íslenskt samfélag síðustu ár. Ég er líka hrærður yfir þeim áskorunum sem ég hef fengið frá fjölda fólks um að bjóða mig fram til áframhaldandi starfa fyrir VG á Alþingi.“
Kolbeinn fjallar einnig um þá ákvörðun sína að hafa boðið sig fram í Suðurkjördæmi. Það segist hann hafa gert vegna þess að hann hafi viljað leiða lista flokksins í næstu kosningum til að hafa meiri áhrif. „Þá var ég til í að breyta til og búa í öðru umhverfi en á höfuðborgarsvæðinu, en það er nægur tími til þess síðar á lífsleiðinni. Ég tók áhættu með þessu og hún gekk ekki upp. Samkeppnin var enda mikil við frábært fólk og efstu sæti listans skipa öflugar konur. Undanfarið hefur mér borist fjöldi áskorana og hvatning frá býsna mörgum um að gefa kost á mér í forvalinu í Reykjavík. Góðir og gegnir félagar skoruðu á mig opinberlega og enn fleiri hafa haft samband við mig persónulega. Frómt frá sagt varð ég undrandi og hrærður yfir viðbrögðunum. Mér þykir ótrúlega vænt um að fjöldi fólks hafi þá skoðun að ég eigi áfram heima á Alþingi og ég þakka auðmjúklega fyrir stuðninginn.“
Framboðsfrestur í forvali Vinstri grænna í Reykjavík rennur út á morgun. Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, sem leiddu lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum haustið 2017, hafa lýst yfir framboði á nýjan leik og munu án efa leiða lista Vinstri grænna áfram. Steinunn Þóra Árnadóttir, sem var í öðru sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður á eftir Katrínu fyrir tæpum fjórum árum, og er sitjandi þingmaður, sækist líka eftir endurkjöri. Á meðal annarra sem hafa tilkynnt framboð er Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, sem sækist eftir 2. sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna líkt og Kolbeinn og Steinunn. Það hafa Elva Hrönn Hjartardóttir, sérfræðingur á þróunarsviði hjá VR, og Andrés Skúlason, fyrrum oddviti í Djúpavogshreppi, einnig gert. Því eru alls fimm sem sækjast eftir tveimur sætum á eftir oddvitunum.