Kólumbía hefur skilað loftslagsmarkmiðum sínum til loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í París í desember. Kólumbía varð um leið 59. landið til að skila slíkum markmiðum af þeim 165 löndum sem koma til með að undirrita hugsanlegt loftslagssamkomulag.
Á ráðstefnunni í París er markmiðið að komast að bindandi samkomulagi um að minnka losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið og hægja á hlýnun jarðar. Ætlast er til þess að öll löndin skili eigin markmiðum í loftslagsmálum og á þeim grunni verði komist að samkomulagi. Það er önnun nálgun en gerð var á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 2009, þegar reynt var að semja um útblástursheimildir hvers ríkis.
Frestur til að skila markmiðum rennur út um næstu mánaðarmót. Samkvæmt könnun New Climate Institute frá 1. september er búist við að 45 lönd skili markmiðum sínum í september, 16 í október, sex í nóvember og eitt í desember eða eftir að ráðstefnan hefst. Flest iðnvædd og þróuð ríki hafa þegar skilað sínum markmiðum en svokallaður mjúkur skilafrestur þessara landa rann út í lok mars.
Þegar hafa þau lönd sem bera ábyrgð á helmingi alls útblásturs koltvíoxíðs í heiminum skilað loftslagsmarkmiðum. Samkvæmt könnun New Climate Institute er búist við að 76 prósent alls útblásturs verði búið að setja markmið um í lok september.
Bogóta, höfuðborg Kólumbíu, er staðsett langt frá ströndinni, handan fjalla, í 2.640 metra hæð yfir sjávarmáli.
Samkomulagið sem stefnt er að á ráðstefnunni í París tekur gildi árið 2020. Meginmarkmið samkomulagsins er að öll lönd heimsins taki höndum saman við að koma í veg fyrir að meðalhiti jarðar hækki um tvær gráður, miðað við það sem var fyrir iðnbyltingu (um aldamótin 1800).
Helstu afleiðingar hlýnunar jarðar fyrir Kólumbíu eru hverfandi jöklar og óhjákvæmlilega rýrari vatnsbúskapur. Í Kólumbíu hefur minna vatn áhrif á raforkuframleiðslu landsins. Talið er að ef sama þróun heldur áfram og hefur verið síðan 1990 verði allir jöklar landins horfnir á næstu 100 árum.
Þá hefur hækkandi yfirborð sjávar gríðarleg áhrif í Kólumbíu. Hækki sjávarborð að jafnaði um einn metra mun það sökkva nærri 5.000 ferkílómetrum lands og neyða 1,4 milljón manns til að flytja á brott. Auk þess munu meira en 7 milljónir hektara ræktarlands hverfa í hafið.