83. 52. 41.
Fimmtánda daginn í röð er mótmæli í Íran. Tala látinna er á reiki. Mannréttindasamtök um stöðuna í Íran (IHR), sem hafa aðsetur í Noregi, segja 83 hafa látið lífið í mótmælum í Íran síðustu tvær vikur. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International eru með nöfn 52 karla, kvenna og barna sem öryggissveitir íranska ríkisins hafa drepið. Yfirvöld segja 41 hafa látið lífið í átökunum, liðsmenn öryggisveita þar á meðal.
Rúmar tvær vikur eru síðan Mahsa Amini, 22 ára kona frá Kúrdistan, lést í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran. Amini var á ferðalagi í Teheran, höfuðborg Íran, um miðjan september þegar íranska siðgæðislögreglan handtók hana fyrir meint brot á reglum um að bera slæðu. Mat siðgæðislögreglan það svo að slæðan huldi ekki nægilega mikið af höfði hennar þar sem hár hennar var sýnilegt. Þá hafi klæðnaður hennar einnig verið „óviðeigandi“.
Tugir drepnir af yfirvölum í nafni öryggis
Kona. Líf. Frelsi.
Á þessum orðum hóf Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ræðu sína undir liðnum störf þingsins á Alþingi á fimmtudag.
„Þrjú orð þrungin djúpri og sársaukafullri merkingu. Þessi þrjú orð kjarna mótmælin í Íran á mjög einfaldan hátt þar sem tugir hafa verið drepnir af yfirvöldum í nafni öryggis. Í nafni öryggis þarf að drepa konur sem klæðast ekki réttu fötunum. Að vera kona sem getur ekki valið hvernig hún klæðist, að vera kona sem ræður ekki lífi sínu, að vera kona sem má ekki ræða opinberlega um jafnrétti, að vera kona sem má ekki ferðast erlendis án þess að fá leyfi frá eiginmanni sínum, að vera kona sem má ekki heita nafninu sínu er ógn við öryggi yfirvalda. Kona, líf, frelsi,“ sagði Björn Leví.
Masha Amini hét réttu nafni Jina Amini. Mahsa Amini var nafnið í vegabréfinu þar sem hennar rétta nafn, Jina, gaf til kynna kúrdískan uppruna hennar sem brýtur gegn írönskum lögum.
„Nú berst fólk í Íran fyrir frelsi sínu, frelsi til að tala, klæða sig og lifa sjálfstæðu lífi, frelsi sem yfirvöld í Íran svipta fólk með ofbeldi sem er réttlætt með trúboði, að í krafti einhvers almættisins megi valdhafar drepa konur. Baráttan fyrir sjálfstæðu lífi er aldrei langt í burtu,“ sagði Björn Leví, sem hvatti þingheim til að taka þátt með því að segja nafn hennar.
„Jina Amini. Við getum tekið þátt í því með því að segja orðin: Kona, líf, frelsi,“ sagði þingmaðurinn.
Samstöðumótmæli víða um heim – líka á Íslandi
Mótmælin hófust í Kúrdistan, heimahéraði Amini, en breiddust fljótt út. Dagleg mótmæli hafa staðið yfir í tugum borga í Íran í 15 daga og samstöðumótmæli hafa verið í borgum víða um heim. Boðað hefur verið til samstöðumótmæla á Austurvelli í kvöld klukkan 19.
Mótmælendur eru á öllum aldri, konur jafnt sem karlar, en það sem er ef til vill nýtt við mótmælin nú er að þau eru leidd af konum af öllum kynslóðum og hafa stjórnmálaskýrendur fullyrt að um feminíska byltingu sé að ræða, byltingu þar sem krafan snýst um frelsi til að velja.
Ebrahim Raisi, forseti Írans, segir að dauði Amini veki upp sorg hjá öllum en að ríkistjórn hans „geti ekki leyft fólki að trufla frið samfélagsins með óeirðum“.
Í ávarpi sem hann flutti á miðvikudagskvöld sakaði hann „óvini“, þar á meðal Bandaríkin, um að „etja fólki gegn hvort öðru“.
Afrit af skjali, sem lekið var til Amnesty International, sýnir að yfirstjórn öryggissveita í Teheran, höfuðborg Írands, sendu fyrirmæli til öryggissveita í öllum héruðum landsins 21. september, þess efnis að taka á mótmælendum af hörku.
„Yfirvöld í Íran hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að særa eða drepa fólk sem tjáir reiði sína eftir áratuga kúgun og óréttlæti,“ segir Agnes Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.