Kynjaslagsíðu körlum í vil gætir í fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla og er þessi slagsíða meiri en ætla mætti miðað við stöðu kvenna innan íslensks samfélags almennt. Þetta er meðal niðurstaða Valgerðar Jóhannsdóttur, lektors í blaða- og fréttamennsku við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Finnborgar Salome Steinþórsdóttur, nýdoktors í kynjafræði við sömu deild. Niðurstöður samanburðarrannsóknar Valgerðar og Finnborgar má finna í greininni Kynjaslagsíða í fréttum: Um fjölbreytni og lýðræðishlutverk fjölmiðla sem er birt í nýjasta tölublaði ritrýnda tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla.
Fram kemur í grein þeirra Valgerðar og Finnborgar að aðeins þriðjungur viðmælenda í fréttum séu konur og að hlutur kvenna í fréttum hérlendis sé rýrari en annars staðar á Norðurlöndunum. Samt sem áður virðist ekki vera afgerandi kynjaskipting eftir málefnasviðum í fréttum þó víða annars staðar megi greina slíkan mun. „Rannsóknir hafa sýnt fram á kynjuð málefnasvið í fréttum, þar sem karlar eru í meirihluti viðmælenda í „hörðum“ fréttum og konur koma oftast fram í tengslum við „mjúkar“ fréttir,“ segir í skýrslunni en til „harðra“ frétta teljast fréttir sem tengjast stjórnmálum, alþjóðamálum og efnahagsmálum. Hinar svokölluðu „mjúku“ fréttir tengjast aftur á móti félagsmálum, lífsstíl, heilsu og menntun.
„Fáar konur eru í hlutverki sérfræðinga og álitsgjafa í fréttum, sem er ekki í samræmi við stöðu kvenna í samfélaginu. Niðurstöðurnar benda til þess að ráðast þurfi í aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og fjölbreytni í fjölmiðlum ef fjölmiðlar eiga að sinna lýðræðishlutverki sínu sem skyldi,“ segir í greininni.
Þörf á verklagsreglum og leiðbeiningum fyrir fjölmiðlafólk
Valgerður og Finnborg segja að nauðsynlegt sé þetta vandamál með heildrænum hætti, meðal annars „út frá lagaumhverfinu, kerfislægum þáttum og menningarlegum þáttum. Stjórnvöld þurfi að setja sér stefnur sem ávarpa áskoranirnar sérstaklega og fjölmiðlar þurfi að innleiða verklagsreglur og leiðbeiningar fyrir starfsfólk.“
Rannsóknin er hluti af alþjóðlegri vötkun sem nefnist Gender and Media Monitoring Project (GMMP) en hún er langlífasta og umfangsmesta rannsókn á hlut og birtingarmynd kvenna og karla í fréttamiðlum. Fyrsta rannsóknin var gerð árið 1995 í 71 landi og hefur verið endurtekin á fimm ára fresti síðan. Ísland hefur tekið þátt í rannsókninni frá upphafi er frá er skilið árið 2005. Í síðustu rannsókn sem framkvæmd var árið 2020 voru fréttamiðlar í 116 löndum vaktaðir.
„Vöktunin felst í að greina umfjöllun í helstu fréttamiðlum þátttökulanda einn tiltekinn dag og draga þannig upp „dæmigerða“ mynd af hlut og birtingarmynd kynjanna,“ segir í greininni um framkvæmdina. Rannsóknin náði til tveggja prentmiðla; Fréttablaðsins og Morgunblaðsins, tveggja ljósvakamiðla sem halda úti fréttastofum; RÚV annars vegar og Stöð 2 og Bylgjunnar hins vegar, og sjö vinsælustu vefmiðla landsins en þeir eru dv.is, frettabladid.is, kjarninn.is, mbl.is, ruv.is, stundin.is og visir.is.
Konur eru 57 prósent viðmælenda í innlendum fréttum
Meðal niðurstaðna vöktunarinnar var að þriðjungur fréttanna í íslenskum fréttamiðlum þann dag sem vöktunin náði til (29. september 2020) var skrifaður eða fluttur af konum. Þetta hlutfall er mun lægra hér á landi en víðast hvar annars staðar. Meðaltalið á heimsvísu er 37 prósent og í Evrópu er hlutfallið 41 prósent. Í norrænum samanburði kom Ísland verst út ásamt Danmörku.
Líkt og áður segir er hlutfall viðmælenda einnig þriðjungur en annað er uppi á teningnum þegar litið er til viðmælenda í innlendum fréttum, þar mælist hlutfallið 57 prósent. Vera kann að stærsta fréttamál vöktunardagsins setji strik í reikninginn og hafi áhrif á þetta hlutfall til hækkunar. „Hvort niðurstöðurnar bendi til þáttaskila hér á landi eða hvort þetta sé tilfallandi, og þá tilkomið vegna þess að vöktunardaginn voru kynntar Covid-19-aðgerðir þar sem forsætisráðherra og ráðherra ferðamála voru áberandi í fréttum, á eftir að koma í ljós,“ segir í greininni. Á þessum tíma var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir var ráðherra ferðamála og að auki má nefna að Svandís Svavarsdóttir var heilbrigðisráðherra.
Hlutfall kvenna í erlendum fréttum er aftur á móti áhyggjuefni að mati greinarhöfunda, það mældist einungis sex prósent í vöktuninni.
„Afgerandi fáar“ konur í hlutverki sérfræðinga og álitsgjafa
Í lokakafla greinarinnar segir að á Íslandi starfi hlutfallslega fleiri konur við fjölmiðla en eru í fréttum „og endurspeglar það, líkt og fyrri rannsóknir, að ekki eru bein tengsl á milli hlutar kvenna í blaða- og fréttamennsku og fjölda og birtingarmynda kvenna í fjölmiðlum.“
Þar segir einnig að niðurstöðurnar bendi til þess að meiri kynjaslagsíða sé í íslenskum fréttamiðlum en ætla mætti miðað við stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Þannig eru „afgerandi fáar“ konur í hlutverki sérfræðinga og álitsgjafa í fréttum. Þrátt fyrir að það sé í takt við erlendar rannsóknir. Það er engu að síður áhyggjuefni en líkt og höfundar benda á hafa konur verið meirihluti háskólanema í tæplega fjóra áratugi, þeim hefur farið fjölgandi í hópi sérfræðinga auk þess sem konur gegna leiðandi stöðum í opinbera geiranum og í fjöldahreyfingum launafólks.
Valgerður og Finnborg benda á að kynjamunurinn rími við hugmyndir Lynn Weber um kynjuð valdatengsl „og hvernig ráðandi hópurinn, í þessu tilfelli karlar, hefur greiðari aðgang pólitískum og hugmyndafræðilegum auði samfélagsins. Fjarvera kvenna í hlutverki sérfræðinga og álitsgjafa í fréttum, þrátt fyrir að fjöldi þeirra búi yfir mikilli þekkingu og reynslu, getur endurspeglað hvernig ósýnileg viðmið fyrir það hlutverk eru sniðin að ráðandi hópi karla. Full ástæða er til að skoða sérstaklega hvað veldur því að sérfræðiþekking kvenna virðist ekki skila sér í fjölmiðla í sama mæli og þekking og álit karla.“