Konur í Sádí-Arabíu munu fá að kjósa og bjóða sig fram til kosninga í fyrsta sinn í desember næstkomandi. Þá fara fram sveitarstjórnarkosningar í landinu. Kjósendur þurfa að skrá sig til að komast á kjörskrána, og skráningin hófst víðast hvar í gær.
Tvær konur, þær Safinaz Abu al-Shamat og Jamal al-Saadi, urðu fyrstar kvenna í sögu ríkisins til þess að komast inn á kjörskrána. Þetta gerðist reyndar um síðustu helgi, en skráning hófst þá í Mekka og Medínu.
Búist er við því að um 70 konur muni bjóða sig fram í kosningunum, og að um 80 konur til viðbótar muni skrá sig sem kosningastjóra. Hvorki karlar né konur munu mega nota myndir af sér til að auglýsa sig. Á kjördag verða svo aðskildir kjörstaðir fyrir kynin.
Kosningaréttur kvenna hefur lengi verið baráttumál í þessu mjög íhaldssama ríki, þar sem konum er enn bannað að keyra og þar sem kerfið geri ráð fyrir því að þær séu undir forsjá karla, og þurfi leyfi slíks ef þær vilja fara í háskóla, vinna, ferðast, höfða mál á hendur einhverjum og í einhverjum tilvikum einnig ef þær þurfa að gangast undir læknishendur.
Þátttaka kvenna í kosningum er því mikilvægt skref í átt að aukinni samfélagsþátttöku kvenna, að mati Nouf al-Sadiq, meistaranema í Miðausturlandafræðum við George Washington háskólann. Hún telur það einnig mikilvægt skref í átt að hófsamara samfélagi. Fawzia Abu Khalid, stjórnmálafélagsfræðingur við King Saud háskóla, segir svo við Al Jazeera að sú ákvörðun að heimila konum að kjósa endurspegli víðtækari breytingar sem muni verða á samfélaginu.
Þó benda aðrir á að kynjamisrétti sé svo inngróið í ríkinu að það þurfi allsherjaryfirhalningu til þess að raunverulegar breytingar verði. Þrátt fyrir þennan kosningarétt og kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum verði sýnileiki kvenna og völd lítil. Sveitastjórnir hafi lítil völd.