Stór hluti heimsbyggðarinnar reiðir sig á korn frá Úkraínu, en talið er að á síðasta ári hafi kornið fætt 400 milljónir manns. Fólk í Afríku er meðal þeirra sem reiðir sig einna mest á korn frá Úkraínu og hefur innrás Rússlands í landið haft þau áhrif að ekki var hægt að flytja út korn frá Úkraínu mánuðum saman.
Undanfarnar vikur, samhliða því að ástandið á sumum svæðum Úkraínu hefur orðið stöðugra, hefur hins vegar dregið til tíðinda í útflutningi eftir að Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkland náðu samkomulagi við Rússland um að hefja mætti kornflutninga frá þremur úkraínskum höfnum við Svartahaf til Istanbúl, þaðan sem kornið er svo flutt áfram.
Síðan samkomulagið náðist hefur korn verið flutt til Evrópu, Asíu og Mið-Austurlanda, sem einnig reiða sig að miklu leyti á korn frá Úkraínu, en í dag verður korn loks flutt til Afríku, þar sem fjöldi ríkja er á barmi hungursneyðar vegna skorts á korni frá Úkraínu.
Samkvæmt umfjöllun New York Times er um að ræða flutningaskipið Brave Commander, sem siglir undir líbönskum fána, sem mun halda til Eþíópíu með 23 þúsund tonn af korni, en flutningarnir fara fram á vegum Sameinuðu þjóðanna. Skipið lagði að bryggju í Pivdennyi höfninni í morgun og voru skipverjar nokkuð hissa á því hve vandræðalaus aðgerðin var.