Sá kostnaður sem Ísland bar vegna fyrsta áfanga vinnu við úttekt á vegum Alþjóðamatvælastofnunarinnar (FAO) á veiðum og viðskiptaháttum útgerða, þar á meðal í þróunarríkjum, nam 15 þúsund bandaríkjadölum, jafnvirði rétt innan við tveggja milljóna íslenskra króna.
Þetta kemur fram í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans vegna málsins. Afrakstur vinnunnar í þessum fyrsta áfanga úttektarinnar af fjórum var kynntur á veffundi sjávarútvegsskrifstofu FAO fyrr í vikunni.
Þar lýsti Stefán Jón Hafstein, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu, því yfir fyrir hönd Íslands að stjórnvöld væru viljug til þess að halda áfram að styðja við þetta verkefni, en Ísland greiddi allan kostnað við fyrsta áfanga vinnunnar.
Verkefninu var enda hleypt af stokkunum að frumkvæði Íslands, en það að fá FAO til að vinna úttekt af þessu tagi var ein af sjö aðgerðumsem stjórnvöld boðuðu til þess að auka traust á íslensku atvinnulífi í kjölfar þess að Samherjamálið í Namibíu kom upp árið 2019.
Stjórnvöld sögðust ætla að leggja til að á grundvelli úttektarinnar myndi FAO vinna „tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti.“
Fyrsti áfanginn fól í sér kortlagningu á þeim samningum sem eru í gildi um aðgengi á aflaheimildum og greiningu á þeim, en skýrsla með heildarniðurstöðum verður ekki birt fyrr en snemma á næsta ári. Hægt er að nálgast útdrátt um niðurstöðurnar hér.
Fram kom á fundinum í vikunni að næsta skref verkefnisins, annað af fjórum, yrði að gera efnahagslega greiningu á þeim samningum um veiðiheimildir sem kortlagðir voru í fyrsta áfanganum.
Samkvæmt svörum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er „enn verið að vinna undirbúning vegna annars áfanga“ og er það „enn óljóst hver áætlaður kostnaður verður og hvort fleiri ríki komi hugsanlega að verkinu strax í þeim áfanga“. Ísland mun þó taka þátt í kostnaðinum.