Forsvarsmenn mjólkurbúsins KÚ hafa óskað eftir fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni landbúnaðarráðherra vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvöru frá 17. júní síðastliðnum en þá ákvað nefndin að hækka verð á mjólkurvarningi um 3,6 prósent. Í tilkynningu til fjölmiðla segir KÚ að leiðrétting á þessum hækkunum sé forsenda þess að mjólkurbúið geti haldið áfram rekstri. „Að öðrum kosti sjáum við okkur nauðbeygða að draga okkur út úr samkeppni á mjólkurvörumarkaði með tilheyrandi skaða fyrir neytendur.“ Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri KÚ, telur ákvörðunina um hækkun á verði hrávöru fyrst og fremst tekna í þágu Mjólkursamsölunnar (MS) og til að koma höggi á samkeppnisaðila MS.
Síðasta mánudag sagði Ólafur að hækkunin fæli í sér sérstakan samkeppnisskatt og kallaði verðlagsnefndina, sem skipuð er af ráðherra, „verðlagsnefnd MS“.
Hagfræðiprófessor krefst endurskoðunar
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, ritar grein í Fréttablaðið í dag og kallar eftir því að verðlagsnefnd búvara endurskoði verlagningu sína frá 17. júní og lækki heildsöluverð á ópakkaðri mjólk um minnst tíu krónur á lítrann. Er þá átt við mjólk sem er keypt áður en hún fer í fernur. Helstu kaupendur ópakkaðrar mjólkur eru aðilar í samkeppni við MS í framleiðslu og sölu afurða sem eru unnar úr ópakkaðri mjólk.
Þórólfur segir að miðað við ákvörðun verðlagsnefndarinnar um hækkun verðs þá virðist það vera mat hennar að kostnaður við pökkun sé 16 krónur á hvern lítra, en nefndin ákvað að heildsöluverð skyldi verða 105 krónur fyrir lítra af gerilsneyddri mjólk og verð á mjólk í eins lítra fernu skyldi vera 121 króna.
„Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér hefur tekist að afla mér kostar pappírsfernan sjálf komin í átöppunarsal á bilinu 16 til 18 krónur. Þá á eftir að koma mjólkinni í fernuna. Til þess að gera það þarf mikið húsnæði, stóra og dýra vélasamstæðu auk nokkurs mannafla. Varlega áætlað kostar það 10 krónur á hvern lítra að koma mjólkinni úr tanknum í fernuna,“ segir Þórólfur sem telur verðlagsnefnd hafa brugðist hlutverki sínu. „Það er ekki nóg að láta fulltrúa Mjólkursamsölunnar segja sér hvað kostar að tappa mjólk á fernu. Það þarf að afla sjálfstæðra upplýsinga. Sem er auðvelt því Mjólkursamsalan er ekki ein um að tappa vökva í TetraPakk-umbúðir hér á landi!“ Auk þess að kalla eftir afturköllun verðhækkana þá fer Þórólfur fram á opinberan rökstuðning Verðlagsnefndarinnar fyrir verðhækkunum.
Hagfræðistofnun vill breyta kerfinu
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti í síðasta mánuði skýrslu um stöðu mjólkurframleiðslu á Íslandi og lagði til miklar breytingar á núgildandi kerfi, sem er sagt kosta neytendur um átta milljarða á ári. „Það kerfi sem er viðhaft á Íslandi við mjólkurframleiðslu gerir það að verkum að íslenska ríkið og eigendur þess, íslenskir neytendur, þurfa að borga um átta milljörðum krónum meira fyrir framleiðslu á henni en ef mjólkin hefði einfaldlega verið flutt inn frá öðru framleiðslulandi á árunum 2011 til 2013. Ríkið og neytendur borguðu 15,5 milljarða króna fyrir mjólkina á tímabilinu en innflutt mjólk, með flutningskostnaði, hefði kostað 7,5 milljarða króna. Reyndar er það svo að á tímabilinu sem um ræðir var framleitt meira af mjólk hérlendis en neytt var af henni. Neysla Íslendinga hefði einungis kostað tæplega 6,5 milljarða króna á ári. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostaði neytendur og ríkið því milljarð til viðbótar,“ segir í ítarlegri umfjöllun Kjarnans um skýrsluna frá því í fyrri hluta júní.
Landssamband kúabænda og Bændasamtökum brugðust fljótt við skýrslunni og sögðu hugmyndir sem í henni er að finna kollvarpa núverandi fyrirkomulagi mjólkurframleiðslu. Í tilkynningu frá Landssambandi kúabænda og Bændasamtökunum segir að verð á mjólkurvörum hafi verið hagfelld neytendum, og því hefði átt að vera gert hærra undir höfði í skýrslu Hagfræðistofnunar.