Arnar Sigurðsson vínkaupmaður, sem ÁTVR hefur sakað um brot á lögum um virðisaukaskatt, hefur farið fram að það við Ívar J. Arndal forstjóra ÁTVR að hann afturkalli kærur á hendur Arnari og fyrirtækjum hans hérlendis og erlendis og biðji sig opinberlega afsökunar með heilsíðuauglýsingum í prentmiðlum og vefborðum á tveimur víðlesnustu fréttasíðum landsins.
Þetta kemur fram í bréfi sem Arnar stílaði á ríkisforstjórann í dag, en kærur ÁTVR á hendur Arnari og félaginu Sante ehf. og franska fyrirtækinu Santewines SAS voru sendar út undir lok síðasta mánaðar. Arnar gefur Ívari tvo daga til að bregðast við kröfum sínum.
Vínkaupmaðurinn Arnar segir að ásakanir Ívars í sinn garð séu rangar og sé „alvarlegt mál“ og hljóti að vera fordæmalaust „að forstjóri ríkisstofnunar komi fram opinberlega og ásaki samkeppnisaðila ranglega um skattalagabrot.“
Hann segir að með „lágmarks fyrirhöfn hefði mátt leiða í ljós þá augljósu staðreynd að Santewines SAS hefur bæði íslenska kennitölu og virðisaukaskattsnúmer“ og gefi út reikninga með 11 prósent virðisaukaskatti í samræmi við gildandi lög og hafi gert frá því að félagið hóf starfsemi hér á landi.
„Allar ásakanir um skattsvik og undanskot eru rógburður“
„Hin íslenska kennitala og virðisaukaskattsnúmer voru skráð hjá Skattinum í apríl sl. en félagið hóf starfsemi í maí. Gjalddagi virðisaukaskatts er einum mánuði og fimm dögum eftir lok hvers almenns uppgjörstímabils sem í tilviki Santewines SAS er tveir mánuðir. Til dæmis er gjalddagi vegna maí og júní þann 5. ágúst nk. Innheimtur virðisaukaskattur frá upphafi starfseminnar er því ekki í gjalddaga fallinn. Engin vanskil hafa orðið. Öll aðflutningsgjöld vegna innflutnings Sante ehf. á áfengi, þ.m.t. áfengisgjald, virðisaukaskattur og skilagjald hefur þegar verið greitt til ríkissjóðs. Allar ásakanir um skattsvik og undanskot eru rógburður,“ skrifar Arnar.
Vínkaupmaðurinn gerir kröfu um að kærurnar frá ÁTVR verði dregnar til baka án tafar og „afsökunarbeiðni verði birt með heilsíðu auglýsingum í Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu og vefborðum í eina viku (7 daga) á vefsíðunum visir.is og mbl.is.“
Einnig segir Arnar að í afsökunarbeiðninni skuli koma fram að kærurnar hafi verið dregnar til baka þar sem ekki hafi reynst fótur fyrir þeim og að beðist sé afsökunar á því að hafa haft frammi rangar sakargiftir gagnvart honum og félögunum Sante ehf. og Santewines SAS.