Íslandsdeild Transparency International skorar á Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og þau sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa undirritað stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð, um að upplýsa um hvort þau telji framferði Samherja samræmast stefnu SFS um samfélagsábyrgð, sem SFS hefur sett sér og fyrirtækin með undirritun sinni lýst yfir að þau ætli að fylgja.
Fyrirtæki innan SFS settu sér stefnu um samfélagsábyrgð síðasta haust og hafa tugir fyrirtækja undirritað hana nú þegar. Samherji er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa undirritað stefnuna.
Í erindi sem framkvæmdastjóri Íslandsdeildarinnar, Atli Þór Fanndal, sendi á framkvæmdastjóra og stjórnarformann SFS í gær er skorað á þau fyrirtæki sem hafa undirritað stefnuna að sýna íslensku þjóðinni, „eiganda auðlindarinnar sem þau hafa einkarétt til að nýta, þá lágmarksvirðingu að upplýsa hana um hvort þau telja framferði Samherja samræmast stefnu SFS um samfélagsábyrgð sem samtökin hafa sett sér og fyrirtækin hafa með undirritun sinni lýst yfir að þau ætli að fylgja.“
Íslandsdeild Transparency segir að íslenska þjóðin hljóti að furða sig á því „að SFS og fyrirtæki sem hafa undirritað stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð skuli ekki hafa talið tilefni til að stíga fastar niður“ og fordæma framferði Samherja og „skæruliðadeildar“ fyrirtækisins sem hefur opinberast í nýlegum umfjöllunum Kjarnans og Stundarinnar.
„Það vekur spurningar um tilgang verkefnisins að enn sé Samherji hluti af verkefninu og þar með listað af Samtökunum sem fyrirtæki í sátt við undirritaðar reglur,“ segir í erindinu.
„Stjórn SFS verður að spyrja sig hvort almenningur og viðskiptavinir fyrirtækjanna geti réttilega dregið þá ályktun af veikum viðbrögðum samtakanna sem virðast bara telja rétt og eðlileg að þegja þunnu hljóði á meðan Samherji gengur fram með fordæmalausum aðgerðum gegn blaðamönnum innanlands sem og erlendis, stéttarfélögum, uppljóstrurum, eftirlitsstofnunum, sjálfstæðum félagasamtökum og þar af leiðandi samfélaginu öllu,“ segir ennfremur, í erindi Íslandsdeildar Transparency International.
Hafa kallað eftir breiðfylkingu
Íslandsdeildin, sem er á meðal þeirra sem „skæruliðadeildin“ safnaði upplýsingum um og vildi beita sér gegn, hefur þegar kallað eftir „breiðfylkingu almennings, félagasamtaka, stéttarfélaga, samtaka uppljóstrara, fræðasamfélags, stjórnmálanna og allra þeirra sem vettlingi geta valdið gegn tilraunum fyrirtækisins og „skæruliða“ til að grafa undan samfélagssáttmálanum og gildum þeim er hann byggir á.“
Í yfirlýsingunni sem félagið sendi frá sér síðustu helgi sagði að Samherji hefði á engum tímapunkti sýnt vilja til umbóta eftir að Namibíumál fyrirtækisins kom upp heldur hefði hann þvert á móti varið fé og vinnustundum í að grafa undan eftirlitsstofnunum, blaðamönnum og þar með samfélaginu öllu.
„Fyrirtæki sem hafa ekkert að fela stunda ekki árásir á fólk sem berst fyrir bættu samfélagi og almannaheill. Fyrirtæki sem eru meðvituð um almannahag þurfa ekki „skæruliðadeild“ sem lætur sig dreyma um að „stinga, snúa og strá svo salti í sárið,“ sagði Transparency.