Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, ætlar ekki að hafna hækkun stjórnarlauna um 33,3 prósent líkt og Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi og aðalmaður í stjórn Samtaka atvinnulífsins, gerði í gær. Í samtali við Morgunblaðið segist Kristján virða ákvörðun Rannveigar og að hún ráði því alveg sjálf hvort hún þiggi hækkunina eða ekki. "Þetta hefur engin áhrif á okkar samvinnu."
Laun stjórnarmanna í HB Granda, sem skráð var á markað í fyrra, voru hækkuð um 33,3 prósent á síðasta aðalfundi félagsins. Stjórnarmenn í félaginu fá nú 200 þúsund krónur greiddar á mánuði í stað 150 þúsund króna og stjórnarformaðurinn tvöfalda þá upphæð. HB Grandi greiddi hluthöfum sínum 2,7 milljarða króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs.
Rannveig hafnaði hækkuninni
Rannveig sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem sagði að eftir á að hyggja sé hækkunin á milli ára ekki í takti við stöðu kjaramála á Íslandi og því muni hún ekki þiggja hana.
Í tilkynningu sinni segir Rannveig að þar sem gagnrýni á ákvörðun hluthafa HB Granda um þóknun til stjórnar fyrirtækisins hafi að hluta til beinst sérstaklega að sér vegna, stöðu hennar í stjórn Samtaka atvinnulífsins, vilji hún taka fram að hluthafar hafi samþykkt tilögu stjórnar um þóknun stjórnarmanna með öllum greiddum atkvæðum. Hún sé ekki hluthafi. „Á milli aðalfunda urðu þær breytingar hjá HB Granda að fyrirtækið var skráð á Aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland. Það felur í sér að meira reynir á stjórnarhætti fyrirtækisins en áður, sem ekki er óeðlilegt að endurspeglist að einhverju leyti í þóknun stjórnar. Þrátt fyrir hækkunina er þóknun stjórnarmanna hjá HB Granda sú næstlægsta meðal fyrirtækja á Aðallistanum. Eftir á að hyggja er hækkunin á milli ára hins vegar úr takti við stöðu kjaramála á Íslandi. Ég hef því ákveðið að þiggja hana ekki.“
Sigmundur og Björgólfur gagnrýndu harðlega
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gagnrýndi hækkanirnar líka í ræðu sinni á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær. Þar sagði hann að tugprósenta hækkun stjórnarlauna í fyrirtækjum vera „kolröng og óábyrg skilaboð inn í samfélagið á þessum tíma. Við þurfum sameiginlega að byggja upp þjóðfélag festu og stöðugleika og slíkar hækkanir hjálpa ekki til við það.“
Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, gagnrýndi launahækkanir stjórnarmanna einnig á fundinum. Í Morgunblaðinu er haft eftir honum að ekkert svigrúm sé til þess að hækka launakjör stjórnenda og stjórna á þessum tímapunkti og að þeir hópar þyrftu að sýna ábyrgð eins og aðrir.