Gengi krónunnar gagnvart evru hefur styrkst um sex prósent á þremur mánuðum. Evran kostði tæplega 150 krónur í lok júní mánaðar, en er í dag komin í tæplega 143 krónur. Sérstaklega hefur krónan styrkst á undanförnum mánuði, en á þremur vikum hefur virði evru farið úr tæplega 148 krónum í tæplega 143 krónur.
Þá hefur mikil breyting orðið á gengi krónunnar gagnvart norskri krónu að undanförnu, en norska krónan hefur veikst mun meira en evran frá því að olíuverð féll hratt með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir norskan efnahag. Norska krónan kostar nú rúmlega 15 íslenskar krónur en fyrir um einu ári kostaði hún tæplega tuttugu krónur, samkvæmt upplýsingum um gjaldeyrismarkaðinn á vef Seðlabanka Íslands. Margir Íslendingar hafa mikla hagsmuni af gengi norsku krónunnar, en meira en tíu þúsund Íslendingar búa nú í landinu, og töluverður fjöldi fólks vinnur í úthöldum í landinu, ekki síst á sviði iðn- og tæknigreina, og í heilbrigðisþjónustu.
Erfitt að spá fyrir um gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum, eins og miklar sögulegar sveiflur hennar í gegnum tíðina bera með sér. Nokkur óvissa er um hvernig gengið mun þróast, samhliða framkvæmdinni um losun hafta, en markmið hennar er að losa um spennu sem hefur gert það að verkum að stórnvöld hafa talið sig þurfa að beita fjármagnshöftum, til að vernda efnahagslegan stöðugleika í landinu.
Samkvæmt kynningu stjórnvalda á áætluninni um losun hafta, er horft til þess að gengi krónunnar eigi að mótast af gangi mála í raunhagkerfinu, þegar fram í sækir, en eins og mál standa nú hafa fjármagnshöftin beint áhrif á gjaldeyrismarkaðinn og ómögulegt að átta sig á því hvernig gengi krónunnar væri án þeirra.