Innleiðing kynjakvóta hjá stjórnum fyrirtækja hefur bætt ákvarðanatöku og leitt til fjölbreyttari umræðna við stjórnarborðið. Þetta leiða niðurstöður rannsóknar Auðar Örnu Arnardóttur, forstöðumanns MBA náms og dósents við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, og Þrastar Olafs Siurjónssonar, prófessors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í ljós. Þau Auður og Þröstur rituðu greinina Áhrif kynjakvóta á stjórnarbrag að mati stjórnarmanna í nýjasta tölublað Tímarits um viðskipti og efnahagsmál þar sem sagt er frá framkvæmd rannsóknarinnar og niðurstöðum hennar.
Ísland er eitt þeirra landa sem hefur lögleitt kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja en það var gert árið 2013. „Íslensku lögin kveða á um að ekki lægra hlutfall en 40% skuli vera af öðru kyni í stjórnum fyrirtækja,“ segir um lögin í greininni og falla öll fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli undir þau. Gögnin sem þau Auður og Þröstur skoðuðu í rannsókn sinni eru frá rafrænni könnun sem gerð var ári eftir að lögin tóku að fullu gildi. Könnunin var send stjórnarmönnum 300 stærstu íslensku fyrirtækjanna. Svarendur voru 244 stjórnarmenn og var hlutfall kvenkyns svarenda 41 prósent.
Stjórnarformenn jákvæðari í garð kynjakvóta en almennir stjórnarmenn
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að aukinn fjöldi kvenna í stjórnum fyrirtækja „hafi ekki aðeins leitt, að mati stjórnarmanna, til ríkari umræðna innan stjórna heldur séu umfjöllunarefnin við stjórnarborðið fjölbreyttari en áður. Þetta hefur bætt ákvarðanatöku stjórna að mati þeirra stjórnarmanna sem voru þátttakendur í þessari rannsókn.“
Meðal áhugaverðari niðurstaðna rannsóknarinnar, að mati greinarhöfunda, er munur á afstöðu stjórnarformanna og almennra stjórnarmanna til kynjakvóta. Jækvæðni í garð kynjakvóta var meiri meðal stjórnarformanna en stjórnarmanna. „Það kann að vera lengri reynsla stjórnarformanna og/eða mögulega meiri yfirsýn þeirra yfir starf stjórna og áhrif stjórna á æðstu stjórnendur viðkomandi fyrirtækis sem skýrir þennan mun,“ segir í lokakafla greinarinnar.
Sambærilegar niðurstöður í erlendum rannsóknum
Þar að auki segja greinarhöfundar það áhugavert að stjórnir séu almennt virkari í eftirlitshlutverki sínu í eftir að kynjakvótinn var lögfestur. Þá telja stjórnarmenn að meiri gaumur sé gefinn að stjórnarháttum fyrirtækja eftir upptöku kynjakvóta.
Erlendis hafa niðurstöður í sams konar rannsóknum verið á svipaða leið. „Meðal skýringa sem hafa verið nefndar, í erlendum rannsóknum, er að konur séu líklegri til þess að vera óháðir stjórnarmenn og ekki með eins víðtækt tengslanet og karlar. Sú fjarlægð kvenna leiði þá hugsanlega til sterkara eftirlits. Áhættufælni kvenna, sem sögð er meiri en karla, hefur líka verið nefnd sem möguleg skýribreyta hér um eftirlitshlutverk stjórna,“ segir í grein þeirra Auðar og Þrastar.