Þær eru nánast tómar alla daga, heilsugæslustöðvarnar sem veita þungunarrofsþjónustu í Texas í Bandaríkjunum. Þeim hefur reyndar fækkað umtalsvert á síðustu árum á sama tíma og samtökum sem berjast gegn þungunarrofi hefur vaxið ásmegin. Starfsstöðvar slíkra samtaka eru þar nú um tíu sinnum fleiri.
Ástæðan er allt að því bann við þungunarrofi í ríkinu. Ríkinu sem til má rekja stjórnarskrárbundin réttindi kvenna til þungunarrofs sem fengust staðfest með dómi Hæstaréttar árið 1973. Sá tímamótadómur upphófst með málsókn konu, sem kölluð var Jane Roe í dómsskjölum, gegn ríkinu. Iðulega er vísað til þess dómafordæmis sem Roe gegn Wade. Konan, sem réttu nafni heitir Norma McCorvey, varð ólétt en vildi rjúfa þungunina. En hún bjó í Texas og á áttunda áratug síðustu aldar var þungunarrof þar aðeins heimilt ef meðgangan ógnaði lífi konunnar.
Nú er ríkið komið á svipaðar slóðir og fyrir hátt í fimmtíu árum. Um miðja síðustu viku tóku gildi lög sem banna þungunarrof eftir að óþroskað hjartað byrjar að slá og dæla blóði um fósturvísinn, sem gerist í sjöttu viku meðgöngu, og skiptir þá til að mynda engu hvort að konunni hafi verið nauðgað. Þetta er einnig það snemma á meðgöngu að fæstar konur eru búnar að átta sig á þunguninni.
En hvernig gat slík afturför átt sér stað hvað réttindi kvenna til að hafa vald yfir eigin líkama varðar?
Aðdragandinn er marglaga og málið á sér meðal annars skýringar í áralangri stjórn Repúblikana í ríkinu, endurtekinni skipun íhaldssamra dómara og auknum ítökum hópa, m.a. kristinna, sem barist hafa gegn þungunarrofi áratugum saman. Þessir hópar eru sumir hverjir samofnir stjórnmálunum og samfélögunum sem þeir starfa í og jafnvel þótt að sífellt fleiri borgir ríkisins séu undir stjórn Demókrata og að álíka margir Texas-búar hafi viljað herða og gera tilslakanir á löggjöf um þungunarrof, hefur boðskapur andstæðinganna náð mikilli útbreiðslu og seytlað inn í samfélögin og náð þar góðri fótfestu.
Eftir dómsmálið sem kennt er við Roe finna Texas-búar fyrir þeirri „skyldu sinni að leiða baráttuna og vera djarfir,“ hefur New York Times eftir John Seago, framkvæmdastjóra Texas Right to Life, stærstu samtökunum sem berjast gegn þungunarrofi í ríkinu.
Á síðustu áratugum hafa stuðningsmenn réttinda kvenna til þungunarrofs verið kosnir á Bandaríkjaþing fyrir Texas. Þannig var það allt þar til snemma á þessari öld. Þá hafði sú hreyfing sem berst gegn þessum réttindum kvenna vaxið fiskur um hrygg.
Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar náðu Repúblikanar svo yfirhöndinni í Texas og allt frá árinu 2003 hafa þeir verið í meirihluta í báðum deildum ríkisþingsins og fulltrúi þeirra setið í stóli ríkisstjóra.
Því hefur Texas á síðustu árum, líkt og fleiri ríki þar sem Repúblikanaflokkurinn heldur um stjórnartaumana, smám saman dregið úr réttindum kvenna til þungunarrofs með ýmiskonar lagasetningu sem oft beinist að þeim miðstöðvum sem veita þjónustuna.
Fyrir tæpum áratug gátu konur sem vildu rjúfa meðgöngu leitað til 40 heilsugæslustöðva í Texas. Slíkar stöðvar eru nú aðeins 24 og fullvíst er að þeim mun fækka ennfrekar vegna hinna nýju laga. Starfsfólkið er hrætt, það óttast lögsóknir, og þjónustan hefur því allt frá því lögin tóku gildi í síðustu viku, verið mjög takmörkuð.
Borgarar geta kært og fengið greitt fyrir
Nýju lögin eru óvenjuleg fyrir margar sakir. Samkvæmt þeim er ekki hægt að kæra konur fyrir að fara í þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngunnar, heldur þá sem framkvæma aðgerðina, þ.e.a.s. miðstöðvarnar, læknana og annað starfsfólk. Samkvæmt þeim er einnig hægt að kæra alla þá sem aðstoða konuna við að fara í aðgerðina – jafnvel leigubílstjórann sem keyrir hana á staðinn, líkt og fjallað er um í fréttaskýringu New York Times. Lögin eru á þann veg að það eru ekki opinberir embættismenn sem bera ábyrgð á því að framfylgja lögunum og geta því kært brot á þeim heldur er því valdi velt yfir á einstaklinga. Almennir borgarar geta kært og eiga jafnframt rétt á 10 þúsundum dollara greiðslu og greiðslu málskostnaðar ef þeir vinna málið fyrir dómstólum.
Áður en lögin tóku gildi með staðfestingu ríkisstjórans í Texas þann 1. september hafði hópur heilsugæslustöðva sem framkvæma þungunarrof beðið Hæstarétt Bandaríkjanna að taka það fyrir. Í neyðarbeiðni þar um sagði að ef frumvarpið yrði að lögum myndi möguleikar kvenna til þungunarrofs þegar í stað verða skertir verulega.
Fimm hæstaréttardómarar af níu neituðu að blanda sér í málið. Niðurstaðan, sem ekki fól í sér skoðun á gildi laganna heldur aðeins því hvort framkvæmd þeirra bæri að stöðva á þessum tímapunkti, var ljós um sólarhring eftir að lögin gengu í gildi.
Það er margt við meðferð Hæstaréttar á málinu sem vakið hefur athygli og spurningar. Annað sambærilegt mál er fyrir Hæstarétti. Það tengist þrengingu þungunarrofslaga í Mississippi. Jafnvel hafði verið búist við því að Hæstiréttur myndi með einhverjum hætti fresta gildistöku Texas-laganna þar til niðurstaða kæmist í fyrrnefnda málið.
Á þeim 48 árum sem liðin eru frá því að Hæstiréttur staðfesti rétt bandarískra kvenna til þungunarrofs árið 1973 hefur hann annað slagið höggvið að þeim réttindum en meirihluti hins vegar aldrei verið fyrir afgerandi breytingum í þá átt að hefta þetta frelsi kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Sömu sögu má segja um niðurstöður dómsmála á lægri stigum dómskerfisins. Mörg ríki hafa viljað þrengja þungunarrofslöggjöf sína en hefur í stóru dráttum ekki orðið ágengt hingað til.
Mississippi-löggjöfin, sem bannar þungunarrof eftir fimmtán vikna meðgöngu nema að brýn læknisfræðileg þörf sé á, var í hugum andstæðinga þungunarrofs „stóra málið“ sem átti að draga tennurnar úr Roe gegn Wade. Ef Mississippi-lögin fá að standa óhreyfð mun það verða til þess að einstök ríki geta farið að setja alls konar lagaumgjörð um þungunarrof – rétt eins og var að eiga sér stað í Bandaríkjunum fyrir árið 1973.
Geta ekkert aðhafst?
Meirihluti Hæstaréttar kvað ekki upp dóm um gildi Texas-laganna gagnvart stjórnarskrá Bandaríkjanna og segist því ekki hafa verið að snúa við niðurstöðu Roe gegn Wade.
En það hversu lævís lögin eru mun gera það erfitt að fá úr þeim skorið fyrir jafnt Hæstarétti sem öðrum dómstólum. Í slíkum málum er samkvæmt hefðinni sá sem framfylgir lögunum kærður, s.s. ríkisstjóri eða ráðuneyti dómsmála. En þessir aðilar hafa enga aðkomu þegar kemur að því að fylgja Texas-lögunum eftir. Það eru almennir borgarar sem hafa valdið. Geta kært. Eins oft og þeir kjósa. Þetta gerði heilsugæslustöðvunum sem framkvæma aðgerðirnar erfitt fyrir að átta sig á gegn hverjum þær ættu að sækja mál sitt til að fá lögunum hnekkt. Það var enginn einn augljós framkvæmdaaðili sem hægt væri að draga til ábyrgðar. „Þessi lög eru sérstaklega hönnuð til að engar slíkar lögsóknir séu mögulegar, jafnvel þótt þau gangi augljóslega gegn fyrri niðurstöðu Hæstaréttar,“ segir Adam Liptak, blaðamaður New York Times.
Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar, fimm íhaldssamra dómara, þar af þriggja sem Donald Trump skipaði, er framsett í nokkrum málsgreinum. Hún er á þá leið að dómurinn getur ekki fjallað um málið því óljóst sé hverja ætti að stöðva, líkt og heilsugæslustöðvarnar höfðu farið fram á, við framkvæmd laganna. Hæstiréttur stöðvar nefnilega ekki beinlínis gildistöku laga heldur þá sem framfylgja þeim.
Rétturinn tók því ekki afstöðu til þess hvort að lögin stæðust stjórnarskrá. Minnihluti Hæstaréttar, frjálslyndari dómararnir fjórir, vildu að lögin yrðu „fryst“ þar til málið væri skoðað í kjölinn. Þeir bentu í álitum sínum m.a. á að Texas-lögin gengju augljóslega gegn Roe gegn Wade og að meirihluti réttarins væri að „grafa höfuðið í sandinn“ við að taka það ekki til efnislegrar umfjöllunar. Sigurinn væri lagarefanna sem fundu smuguna.
Kemur ný Roe fram á sjónarsviðið?
En hvað þarf að gerast svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna fjalli efnislega um lög sem banna þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu, lög sem ganga þvert á fyrri niðurstöður um þessi stjórnarskrárbundnu réttindi kvenna?
Í raun má segja að tvær leiðir séu færar. Í fyrsta lagi gæti niðurstaða áfrýjunardómstóls í máli heilsugæslustöðvanna gegn dómurum í Texas – þeim aðilum sem þær telja að hafi í raun framkvæmdavaldið samkvæmt lögunum – farið alla leið upp í Hæstarétt.
Önnur leið sem væri fær er sú að einhver heilsugæslustöðvanna framkvæmi þungunarrof eftir sjöttu eða sjöundu viku meðgöngu sem leiði til þess að einhver borgari kæri. Með vitund og vilja konunnar sem í hlut á væri svo hægt að fara með slíkt mál fyrir Hæstarétt og fá úr því skorið, svart á hvítu, hvort að Texas-lögin standist stjórnarskrá.
Forsvarsmenn heilsugæslustöðvanna eru skiljanlega hikandi við að taka sénsinn. Að eiga mögulega yfir höfði sér hundruð kæra vegna einnar aðgerðar – sem er ekki útilokað miðað við lagatextann. En ef einhver væri tilbúin í þann slag gæti Roe gegn Wade mögulega endurtekið sig í einhverri mynd. Og miðað við samsetningu réttarins, þar sem íhaldssamir dómarar eru orðnir í meirihluta, er ekki fullvíst að málinu ljúki með sigri hinnar nýju Roe.