Landsbankinn, sem er í ríkiseigu, hagnaðist um 7,6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021. Arðsemi eiginfjár hans var 11,7 prósent. Um 2,5 milljarðar króna af hagnaðinum er vegna jákvæðrar virðisbreytinga á útlánum sem eru tilkomnar vegna þess að spár um efnahagsbata og ítarlegt mat á útlánasafni þótti gefa tilefni til þess. Kostnaðarhlutfall bankans – hlutfall rekstrarkostnaðar af rekstrartekjum – var 45,8 prósent sem er það lægsta á meðal þriggja stærstu banka landsins.
Þetta kemur fram í uppgjöri Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins sem birt var í dag.
Heildareignir Landsbankans jukust um 36,8 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.601 milljarði króna í lok fyrsta ársfjórðungs. Útlán jukust um 14 milljarða króna en útlánaaukningin á fjórðungnum má rekja til aukningar á lánum einstaklinga. Þar er að uppistöðu um að ræða húsnæðislán en hlutdeild Landsbankans á íbúðalánamarkaði er nú 26,8 prósent og hefur aldrei verið hærri. Til samanburðar var sú hlutdeild 22 prósent í lok mars í fyrra.
Eigið fé Landsbankans var 261,4 milljarðar króna í lok mars síðastliðins og eiginfjárhlutfallið var 24,9 prósent. Á aðalfundi bankans, sem haldinn var þann 24. mars 2021, var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2020 að fjárhæð 4.489 milljónir króna og hefur arðurinn verið greiddur út. Hann rennur á langstærstu leyti í ríkissjóð.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna uppgjörsins að það beri hæst í uppgjörinu að þjónustutekjur hafi aukist og sér í lagi tekjur vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum, ekki síst vegna góðs árangurs bankans í eignastýringu. „Góð afkoma er af verðbréfum í eigu bankans og vaxtatekjur eru traustar. Vaxtamunur fer þó enn lækkandi en þar munar mestu um áherslu bankans á að bjóða mjög samkeppnishæfa vexti á húsnæðislánum. Vel hefur gengið að halda rekstrargjöldum í skefjum og hagkvæmni í rekstri bankans heldur áfram að aukast. Hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu heildareigna er 1,5 prósent og hefur lækkað jafnt og þétt undanfarin ár.“