„Ljóð í uppáhaldi“ er draumaverkefni Arnars Jónssonar leikara en hann hefur undanfarin ár safnað saman sínum eftirlætis ljóðum sem hann nú áætlar að gefa út bæði á vínyl en einnig á stafrænu formi fyrir þau sem eru búin að týna plötuspilaranum eða vilja hlusta í bílnum eða uppi í rúmi.
Hann hefur fengið til liðs við sig úrvalshóp til að láta þennan draum sinn rætast og hefur hafið söfnun fyrir kostnaði við útgáfu á þessu verki á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ljóðið hefur fylgt mér frá því ég var pjakkur fyrir norðan og allar götur síðan. Í barnaskólanum á Akureyri voru „Skólaljóðin“ lesin og lærð, og auðvitað var það örvun að fá þar verðlaun fyrir að læra ljóð. Í menntaskóla tókum við okkur nokkur saman og stofnuðum ljóðaklúbb og þá var áhuginn vakinn fyrir alvöru. Fljótlega eftir að ég kom til Reykjavíkur fór ég að flytja ljóð opinberlega við hin ýmsu tækifæri, m.a. í útvarpi, á opinberum samkomum, við jarðarfarir og einnig unnið töluvert með tónlistarfólki.
Fyrir ekki svo löngu laust þeirri hugsun niður að gaman væri að kinka kolli til minna fjölmörgu góðra og genginna fyrirmynda eða „mentora“ í ljóðalestri með því að gefa út vínylplötu með safni ljóða úr ólíkum áttum, sem mér vitanlega hefur ekki verið gert um langt skeið,“ segir Arnar.
Hann segir verkið vera safn ljóða úr ólíkum áttum, spurður um hvort eitthvað þema hafi verið ráðandi við val ljóðanna.
„Þar verða mörg þekkt ljóð íslenskrar bókmenntasögu, en einnig lítt þekktari meistaraverk. Sum eru risastór og erfið, önnur aðeins fallegt andartak. Því veit ég veit varla hvort hægt er að tala um sérstakt „þema“, kannski helst að þessi ljóð hafa ómað í höfðinu á mér í áratugi, önnur skemur, en þau hafa öll talað til mín, hvert með sínum hætti. Einnig má finna í bland nýleg ljóð sem hafa kallað á athygli mína.
Í skarkala nútímans á ljóðið undir högg að sækja en ég held að þess hljóðláti og hógværi tónn geti náð athygli fólks og jafnvel átt við það erindi, eitt ljóð fyrir svefninn væri öllum hollt! Alla tíð höfum við átt frábær ljóðskáld og unga kynslóðin er þar engin eftirbátur. Þannig vona ég að ástríðan fyrir því að útbreiða fagnaðarerindi ljóðsins falli í góðan og frjóan jarðveg hjá sem flestum aldurshópum. Mig langar að deila þeim með ykkur. Skila þeim af mér, ef svo má segja. Ég vil að þau eigi sér framhaldslíf,“ segir Arnar.