Skipulagsstofnun telur rétt að Landsvirkjun geri grein fyrir þeim forsendum sem áform um stækkun Sigölduvirkjunar byggja á, þ.e. spám um aukið rennsli og væntanlegri orkuframleiðslu að teknu tilliti til ólíkra sviðsmynda um væntanlegt rennsli. Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið hafa bent á að hönnun virkjunarinnar á sínum tíma hafi verið hugsuð út frá auknu rennsli með nýrri miðlun á svæðinu t.d. með byggingu Kjalölduveitu. Stækkun stöðvarinnar auki ákaflega lítið raforkuframleiðslu hennar nema aukin miðlun komi til.
„Þó svo að Kjalölduveita sé hagkvæm framkvæmd sem myndi auka rennsli til allra virkjana Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu, þá er mögulegt aukið rennsli frá Kjalölduveitu ekki forsenda fyrir stækkun virkjana á Þjórsársvæðinu og ekki er gert ráð fyrir því við mat á arðsemi verkefnanna,“ segir i svörum Landsvirkjunar við þessari athugasemd.
Í áliti Skipulagsstofnunar á matsáætlun áformanna segir hins vegar að í næsta skrefi umhverfismats framkvæmdarinnar, umhverfismatsskýrslu, þurfi að gera skýrari grein fyrir tilgangi og forsendum fyrirhugaðrar stækkunar Sigöldustöðvar sem og áætlaðri orkuframleiðslu með hliðsjón af fyrirliggjandi spám um aukið rennsli á vatnasviði virkjunarinnar.
Stofnunin vill einnig að í umhverfismatsskýrslu verði gerð grein fyrir mögulegum samlegðaráhrifum fyrirhugaðar framkvæmdar með öðrum áformum á virkjanasvæðinu á vatnsrennsli og vatnsborð á áhrifasvæði framkvæmdanna. Leiði fyrirhugaðar framkvæmdir til breytinga á vatnsrennsli og yfirborði vatns sé ennfremur þörf á að meta samlegðaráhrif á lífríki. Að auki þarf að mati stofnunarinnar að gera grein fyrir mögulegri þýðingu þess að nýta vatnsaflsvirkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu til að bregðast við breytilegri vinnslu vindorku og hafa hliðsjón af áhrifum þess við mat á samlegðaráhrifum. Þá skuli Landsvirkjun í umhverfismatsskýrslu gera nánari grein fyrir áhrifum stækkunar á rekstur, raðtengdar virkjanir og orkuöryggi.
Landsvirkjun áformar að stækka Sigöldustöð um allt að 65 MW. Gert er ráð fyrir að bæta við fjórðu vélinni í inntaksmannvirki virkjunarinnar og bæta við fjórðu þrýstipípunni. Sigöldustöð myndi eftir stækkun geta skilað allt að 215 MW afli í stað 150 MW í dag en orkuvinnslugeta stöðvarinnar yrði hins vegar sambærileg og hún er í dag nema til komi meira rennsli.
Samkvæmt matsáætlun Landsvirkjunar er tilgangurinn með fyrirhugaðri stækkun Sigöldustöðvar að auka sveigjanleika í orkuafhendingu og gera fyrirtækinu kleift að mæta afltoppum þegar eftirspurn er í hámarki. Með því að nýta betur aukið rennsli sé Landsvirkjun að sinna hlutverki sínu um að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.
Hönnuð til stækkunar
Sigöldustöð var að sögn Landsvirkjunar hönnuð þannig í upphafi að mögulegt væri að stækka hana með því að bæta við fjórðu túrbínunni. Um sé að ræða hagkvæman kost til aflaukningar þar sem mannvirki sem nú þegar eru til staðar yrðu nýtt betur.
Stækkun Sigöldustöðvar var í orkunýtingarflokki í drögum verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar að flokkun virkjunarkosta. Auk stækkunar Sigöldustöðvar var þar einnig lagt til að stækkun Hrauneyjafossstöðvar og stækkun Vatnsfellsstöðvar fari í orkunýtingarflokk. En á lokadögum þingsins í vor var samþykkt lagabreyting sem felur í sér að stækkanir virkjana þurfa ekki lengur að fara í gegnum ferli rammaáætlunar.
Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið hafa bent á og gera það einnig í athugasemdum sínum við matsáætlun Landsvirkjunar, að stækkunin muni ekki skila aukinni raforkuframleiðslu nema að aukin miðlun vatns komi til. Hafa þau sagt Landsvirkjun ætla sér að byggja umdeilda virkjun, Kjalölduveitu, ofar á vatnasviðinu, í þessum tilgangi. Kjalölduveita er ný útfærsla á Norðlingaölduveitu, hafa samtökin m.a. sagt, þótt mannvirkin myndu standa utan friðlandsmarka Þjórsárvera myndu þau nýta sama vatnasvið. Með stækkun Sigöldustöðvar væri ætlunin að fara „bakdyramegin“ að byggingu Kjalölduveitu. Þessu hafnar Landsvirkjun.
Samkvæmt upplýsingum sem Landsvirkjun veitti Skipulagsstofnun kemur fram að samhliða stækkun Sigöldustöðvar verði einnig hugað að því að auka virkjað rennsli í Hrauneyjafossstöð og auka rennsli í gegnum Búðarhálsstöð. Skipulagsstofnun bendir í áliti sínu á að fjalla þurfi um og meta samlegðaráhrif stækkunar Sigöldustöðvar með öðrum núverandi og fyrirhuguðum framkvæmdum. Meðal þess sem gera þurfi grein fyrir er hvort umræddar stækkanir leiði til breytinga á rennsli neðan virkjana sem og breytinga á vatnshæð í lónum á veituleið. Að sama skapi bendir stofnunin á að gera þurfi grein fyrir mögulegum áhrifum þess að nýta vatnsaflsvirkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu til að bregðast við breytilegri vinnslu vindorku. Landsvirkjun áformar að reisa þar vindorkuver, Búrfellslund. Umhverfismati þess er þegar lokið og þingið færði virkjunarkostinn í orkunýtingarflokki rammaáætlunar með afgreiðslu sinni í vor.
Gera ráð fyrir meira rennsli vegna hlýnunar
Í matsáætlun Landsvirkjunar kemur fram að síðustu ár hafi rennsli aukist vegna hlýnunar loftlags og að rennsli til Sigöldustöðvarinnar sé meira í dag en það var þegar stöðin var byggð vegna ýmissa framkvæmda við veitur og miðlanir. Þetta hafi gert það að verkum að gengið hafi á sveigjanlegt afl í raforkukerfi Landsvirkjunar upp að því marki að erfitt sé orðið að mæta hæstu afltoppum.
Á næstu árum geri spár ráð fyrir markvert hærra meðalrennsli í ám á Íslandi árin 2021-2050 heldur en var á árunum 1961-1990 þegar Sigöldustöð var byggð, þannig megi búast við því að enn frekar verði gengið á laust afl í raforkukerfinu. Einnig sé ljóst að þörfin hafi aukist fyrir aukna orkuframleiðslu og sveigjanleika í afli til að anna orkuskiptum á komandi áratugum.
Í umsögn Orkustofnunar á matsáætluninni kemur meðal annars fram að ekki sé vikið að áætlunum um vatnsnýtingu í greinargerð Landsvirkjunar. Það er að segja ef rennsli yrði aukið í gegnum Sigölduvirkjun á álagstíma sem gæti síðar haft áhrif á nýtingu virkjunarinnar og annarra raðtengdra virkjana er liði að lokum vatnsárs, m.a. með hugsanlegri hættu á skerðingu líkt og gerðist síðvetrar 2022.
Í athugasemdum Náttúrugriða kemur meðal annars fram að Landsvirkjun þurfi að gera betur grein fyrir því af hverju gengið hefur á sveigjanlegt afl í raforkukerfi Landsvirkjunar en það sé ekki einungis vegna aukins rennslis og framkvæmda við veitur og miðlanir á Þjórsár-Tungnaársvæðinu eins og hér sé gefið í skyn. „Skipulagsstofnun tekur undir með umsagnaraðilum og bendir á mikilvægi þess að greint verði nánar frá áhrifum stækkunar á rekstur, raðtengdar virkjanir og orkuöryggi í umhverfismatsskýrslu,“ segir í áliti stofnunarinnar.