Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lét hafa eftir sér í rússneskum miðlum í dag að Bandaríkin verði að hefja samstarf með stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi, eigi að vinnast sigur gegn Íslamska ríkinu. Sigur verði ekki unninn nema með alþjóðlegri samvinnu.
Bandaríkin sendu í morgun sex F-16 orustuþotur til Tyrklands sem eiga að halda áfram loftárásum á svæði undir stjórn Íslamska ríkisins í Sýrlandi og Írak. Tyrkir samþykktu nýlega að her bandamanna gegn Íslamska ríkinu fengi að nota flugvelli í Tyrklandi.
Stjórnvöld í Moskvu hafa hins vegar gagnrýnt Bandaríkin fyrir að vilja ekki vinna með stjórnvöldum í Sýrlandi, bandamönnum Rússa, í stríðinu gegn Íslamska ríkinu. „Vinir okkar í Bandaríkjunum og fleiri löndum hafa ítrekað neitað að viðurkenna Assad sem bandamann, sem er skrítið,“ sagði Lavrov. Reuters greinir frá.
„Assad er gildur bandamaður þegar kemur að útrýmingu efnavopna en einhvernveginn er hann það ekki þegar kemur að baráttu gegn hryðjuverkum,“ sagði Lavrov enn fremur og vísaði til samkomulags milli Sýrlands, Rússlands og Bandaríkjanna um útrýmingu efnavopna fyrir botni Miðjarðarhafsins.
Bandaríkin, Sádí-Arabía og stjórnarandstæðingar í Sýrlandi hafa ekki viljað vinna með Assad vegna þess að þeir eru á einu máli um að hann verði að láta af völdum. Samvinna með honum gegn Íslamska ríkinu gæti reynst stuðningsyfirlýsing við hann og stöðu hans.