Vítalía Lazareva hefur lagt fram kærur á hendur Ara Edwald, Hreggviði Jónssyni og Þórði Má Jóhannessyni. Frá þessu greinir hún á samfélagsmiðlum og staðfestir við Kjarnann að um sé að ræða þessa þrjá menn.
Stór dagur í dag fyrir mig og vonandi fyrir betra samfélag. pic.twitter.com/NTundVlQ4u
— Vítalía Lazareva (@LazarevaVitalia) March 22, 2022
„Ég ætla ekki skilja málin eftir í lausu lofti og þetta er stórt og mikilvægt skref í rétta átt fyrir mig. Hræðsla og óöryggi er ekki í boði fyrir mig og ég kem til með að standa upprétt og einbeita mér að réttlætinu,“ segir hún í samtali við Kjarnann.
Hún skrifar jafnframt í opinni færslu á Instagram að það hafi tekið tíma „að safna sér saman í næstu skref“ en í dag sé hún tilbúin.
Valdamiklir menn falla
Kjarninn fjallaði um málið í byrjun janúar en Vítalía steig fram og greindi frá meintu ofbeldi í viðtali hjá Eddu Falak í Eigin konum þann 4. janúar síðastliðinn.
Aðdragandinn var sá að seint í október birti Vítalía frásögn á samfélagsmiðlinum Instagram. Frásögnin var af kynferðisofbeldi sem hún sagði sig hafa orðið fyrir af hendi þriggja manna. Í frásögninni lýsti konan því ofbeldi sem hún sagði mennina hafa beitt sig í heitum potti og í sumarbústað, aðdraganda þess að hún hefði endað með þeim þennan dag og í lok hennar nefndi hún þá alla þrjá með nafni, þá Ara Edwald, þáverandi forstjóra Ísey Skyr, Hreggvið Jónsson, þáverandi stjórnarformann og aðaleiganda Veritas, og Þórð Má Jóhannesson, þáverandi stjórnarformann Festi.
Auk þess nefndi hún á nafn giftan mann, einkaþjálfarann Arnar Grant, sem hún átti í ástarsambandi við og fékk hana til að koma á þann stað sem meint brot fóru fram.
Færslan var síðar tekin niður af Instagram en hluti hennar er enn aðgengilegur á Twitter-síðu Vítalíu. Þar voru nöfn mannanna hins vegar ekki birt. Þar segir meðal annars að henni hafi verið ráðið frá „því að segja frá og leita lengra vegna þess að aðilar þessir eru valdamiklir í samfélaginu og allir fjölskyldumenn“.
Vildu engu svara
Skjáskot af frásögn konunnar fóru sem eldur í sinu um íslenskt samfélag. Í stórum hópum var fátt annað rætt í margar vikur á eftir en hvar þetta mál stæði. Ekkert var hins vegar fjallað um málið í fjölmiðlum, þrátt haft hafi verið samband við mennina fjóra, meðal annars frá blaðamanni Kjarnans. Viðbrögðin voru engin. Þeir svöruðu ekki.
Málið tók á sig nýja mynd þegar Vítalía steig fram hjá Eddu og greindi frá meintu ofbeldi.
Allir þrír stigu til hliðar úr ábyrgðarstöðum eftir að fjölmiðlaumfjöllun um málið birtist. Eini sem hefur tjáð sig opinberlega er Hreggviður Jónsson en hann sagði í yfirlýsingu sinni: „Ég harma að hafa ekki stigið út úr aðstæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjölmiðlum. Það er afar þungbært að heyra um hennar reynslu.“
Hreggviður sagðist jafnframt líta þetta mál alvarlegum augum og þrátt fyrir að hann hefði „ekki gerst brotlegur við lög“ þá myndi hann stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja „til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi“.
Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun Kjarnans um málið hér.