Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar gerir lögreglumálið í Ásmundarsal að umræðuefni á Facebook-síðu sinni í dag. Hann segir í samtali við Kjarnann umræðuna um málið dæmigerða um það hvernig hægt sé snúa frásögn á hvolf. Nú sé málið látið fara að snúast um eitthvað sem skipti í raun ekki máli.
Forsaga málsins er sem sagt sú að síðastliðið Þorláksmessukvöld sást Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fá sér í glas á listasýningu, grímulaus. Lögreglan sendi frá sér upplýsingapóst morguninn eftir þar sem greint var frá því að á meðal gesta hefði verið „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“. Málið fór í framhaldinu í fjölmiðla og úr varð mikill hasar.
Ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er nú búið að afgreiða málið og niðurstaða í því liggur fyrir en hún vildi ekki greina frá þeim niðurstöðum í gær þegar eftir þeim var leitast.
Samkvæmt yfirlýsingu frá eigendum Ásmundarsalar, sem birtist í gær, brutu þeir einungis gegn ákvæði um grímuskyldu. Þeir segja að ekki hafi verið brotið gegn reglum um fjöldatakmarkanir í salnum né opnunartíma umrætt kvöld og að ekkert samkvæmi hafi verið haldið í listasafninu.
Nefndin telur háttsemi lögreglumannanna á vettvangi geta verið ámælisverða
Í framhaldinu birtust fréttir þess efnis að nefnd um eftirlit með lögreglu teldi vísbendingar um að fréttatilkynning lögreglu, sem send var út á aðfangadagsmorgun, um meint sóttvarnabrot í Ásmundarsal hefði verið efnislega röng og ekkert tilefni hefði verið til upplýsingagjafar af slíku tagi.
Í frétt Fréttablaðsins um málið kemur fram að í skýrslu nefndarinnar sé rakið samtal lögreglumanna á vettvangi. Þar megi heyra á tal tveggja lögreglumanna:
Lögreglumaður 1. „Hvernig yrði fréttatilkynningin ... 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar..., er það of mikið eða?“
Lögreglumaður 2: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það ...“ og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis ... svona ... framapotarar eða þú veist.“
Samkvæmt Fréttablaðinu telur nefndin þessa háttsemi lögreglumannanna á vettvangi geta verið ámælisverða og þess eðlis að tilefni sé til að senda þann þátt málsins til meðferðar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með vísan til 3. mgr. 35. gr. a í lögreglulögum. Í ákvæðinu segir að ef athugun hennar gefi tilefni til skuli nefndin senda viðkomandi embætti erindi til meðferðar, eftir atvikum í formi kæru.
„Það var sem sagt hægt að halda mannfagnað í Ásmundarsal“
Guðmundur Andri gerir málið, eins og áður segir, að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í dag.
„Fjármálaráðherra og einn þriggja leiðtoga ríkisstjórnarinnar reyndist vera staddur í mannfagnaði á Þorláksmessu síðastliðinni á sama tíma og strangt samkomubann var í gildi samkvæmt reglugerð þeirrar hinnar sömu ríkisstjórnar.
Þetta samkomubann var afar íþyngjandi fyrir almenning: fólk gat ekki haldið jólaboð, stórfjölskyldur gátu ekki hist, gamalt fólk var fast á hjúkrunarheimilum eða heima hjá sér, tónleikar fóru ekki fram, veitingastaðir voru lokaðir, þjóðlífið var nánast lamað: en það var sem sagt hægt að halda mannfagnað í Ásmundarsal með því að kalla hann ýmist sýningu, kynningu, opnun eða annað eftir því hvað klukkan var. Og þar var leiðtogi ríkisstjórnarinnar sem sé að lyfta glasi í góðra vina hópi. Umræðan nú snýst um það hvort lögreglumenn sem komu á vettvang hafi haft óviðurkvæmileg orð um þetta í sinn hóp,“ skrifar hann.