Seðlabanki Íslands tilkynnti í dag fyrirhugað sé að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta erlendis síðar á þessu ári. Samanlagt mun heimildin vera upp á 10 milljarða króna og kemur til með að skiptast milli sjóðanna með þeim hætti að annars vegar verður horft til stærðar sem fær 70 prósent vægi og hins vegar verði horft til hreins innstreymis sem fær 30 prósent vægi. Útreikningar munu byggja á upplýsingum úr nýjustu ársreikningabók Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði.
Fram kemur í tilkynningu Seðlabankans að lífeyrissjóðir og vörsluaðilar séreignasparnaðar verði að sækja um undanþágu til að fjárfesta erlendis.
Lífeyrissjóðir hafa ekki mátt ráðast í nýjar fjárfestingar erlendis frá setningu gjaldeyrishaftanna 2008. Þegar nýjasta afnámsáætlun stjórnvalda var kynnt í júní síðastliðnum var greint frá fyrirætlunum um að heimila sjóðunum að fjárfesta fyrir tíu milljarða króna árlega næstu fimm árin. Tilkynning Seðlabanka Íslands í dag er í takt við það sem kynnt var í júní.
„Gjaldeyrisinnstreymi að undanförnu og minni óvissa um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af setningu laga á Alþingi sem lúta að uppgjöri búa fallinna fjármálafyrirtækja og kynningu áforma varðandi svokallaðar aflandskrónur síðar á yfirstandandi almanaksári skapar svigrúm til fjárfestinga lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Í slíkum fjárfestingum felst þjóðhagslegur ávinningur þar sem lífeyrissjóðunum er gert mögulegt að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum á sama tíma og dregið er úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna þegar fjármagnshöft verða leyst. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika í kjölfar losunar fjármagnshafta,“ segir Seðlabankinn.