Í lögfræðiáliti sem LOGOS hefur unnið fyrir fjóra af stærstu lífeyrissjóðum landsins kemur fram að fyrirhuguð lagasetning Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem á að fela í sér gjaldþrot eða sambærileg skuldaskil ÍL-sjóðs, fari í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Í áliti LOGOS kemur fram að slíkt inngrip fæli í sér eignarnám eða annars konar skerðingu eignarréttinda sem myndi skapa íslenska ríkinu bótaskyldu gagnvart þeim sem eiga skuldabréf útgefin af sjóðnum. Þar eru íslenskir lífeyrissjóðir langfyrirferðamestir, en þeir eiga um 80 prósent bréfanna.
Í lögfræðiálitinu kemur fram að fjármála- og efnahagsráðherra beri beina ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðs eftir þær breytingar sem urðu á Íbúðalánasjóði við lagabreytingu árið 2019, en þá var sjóðnum skipt upp. Verkefni stofnunarinnar og lánveitingar til íbúðarhúsnæðis sem skilgreind voru eingöngu á félagslegum forsendum voru flutt í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldabréfaflokkarnir og vandamálin voru skilin eftir í sjóði sem fékk nafnið ÍL-sjóður. Eigið fé hans við stofnun var neikvætt um 180 milljarða króna. Með því telur LOGOS að fjármála- og efnahagsráðherra hafi verið falin yfirumsjón með ÍL-sjóði. Í tilkynningu frá lífeyrissjóðunum fjórum segir að ÍL-sjóður teljist því ekki sérstök undirstofnun, heldur hluti ráðuneytisins. „Þannig sé íslenska ríkið skuldari frekar en ábyrgðarmaður. Það sé jafnframt í samræmi við þau sjónarmið að færa sjóðinn undir A-hluta ríkisreiknings frá áramótum. Samkvæmt þessu ber fjármálaráðherra beina ábyrgð á sjóðnum og skuldbindingum hans að áliti LOGOS.“
Ennfremur kemur fram í álitinu að ákveði fjármálaráðherra að slíta sjóðnum með þeim afleiðingum að kröfur á hendur þrotabúinu falli í gjalddaga muni íslenska ríkið ótvírætt bera ábyrgð á núverandi og framtíðarskuldbindingum samkvæmt skilmálum skuldabréfanna ásamt dráttarvöxtum.
Ráðherra segist ætla að spara ríkissjóði 150 milljarða
ÍL-sjóður varð til á grundvelli laga sem samþykkt voru árið 2019, og skiptu Íbúðalánasjóði upp í tvennt. Hluti hans, sá sem snýr að fjármögnun á félagslegri uppbyggingu á húsnæði, færðist í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldir og eignir vegna íbúðalána á almennum markaði, sem rekja má að mestu til skuldabréfaútgáfu á árinu 2004, voru sett í ÍL-sjóð. Skuldabréfin, sem eru með gjalddaga til 2044, eru ekki uppgreiðanleg en lánin sem sjóðurinn veitti eru það hins vegar.
Vandi ÍL-sjóðs er tilkominn vegna þess að íbúðalán bankans hafa verið greidd upp á miklum hraða, og eru nú einungis um 20 prósent af eignum sjóðsins, á meðan að enn þarf að þjónusta skuldabréfin. Áætlað er að tap vegna þessa fyrirkomulags verði að óbreyttu 200 milljarðar króna.
Bjarni Benediktsson boðaði til blaðamannafundar í október þar sem hann sagðist ætla að spara ríkissjóði 150 milljarða króna með því að annað hvort ná samkomulagi við eigendur skuldabréfanna um að gefa eftir eignir sínar, eða með því að knýja fram slit sjóðsins með lagasetningu fyrir árslok. Þá yrði tap ríkissjóðs aðeins 47 milljarðar króna, en ekki 200. Þessi áætlun byggði á lögfræðiáliti sem ráðuneytið lét vinna fyrir sig sem komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri gerlegt. Sá sem skrifaði það álit er Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður. Samhliða var greint frá því að Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefði verið fenginn sem milligönguaðili í samtali við eigendur krafna á ÍL-sjóð. hann á að reyna að ná samkomulaginu við sjóðina.
Þann 11. nóvember tilkynntu flestir lífeyrissjóðir landsins að þeir hefði ákveðið að mynda sameiginlega vettvang til að greina stöðu sjóðanna vegna ÍL-sjóðs. Hver og einn sjóður mun þó á endanum taka sjálfstæða ákvörðun um hvað hann vill gera í málinu.
Ekki hægt að bera saman við neyðarlögin
Í álitinu sem lífeyrissjóðirnir hafa látið vinna fyrir sig er gerður samanburður við hið svokallaða Neyðarlagamál, sem er dómur Hæstaréttar í máli sem snerist um neyðarlögin svokölluðu. Þau voru sett í bankahruninu og gerði innstæður að forgangskröfum í þrotabú fallinna banka. Lagasetningin var grundvölluð á almannaþörf. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin héldu.
Í álitinu segir að þær aðstæður sem nú eru uppi séu lítt samanburðarhæfar við þær sem voru haustið 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi að mestu á nokkrum dögum. Þá hafi stórfelld hætta ógnað tilvist alls samfélagsins vegna mikils og fordæmalaus vanda. Innstæðurnar sem undir voru þá hafi verið tvöföld landsframleiðsla. Þeir 150 milljarðar króna sem ríkissjóður telur sig nú vera að spara nemi hins vegar 4,65 prósent af vergri landsframleiðslu miðað við lok árs 2021. Nú sé ekkert skyndilegt að gerast heldur sé staðan afleiðing af ákvörðunum ríkisins yfir lengri tíma. Engin dæmi hafi fundist um að til sambærilegra aðgerða hafi verið gripið í 17 helstu ríkjum Evrópu.