Stjórn lífeyrissjóðs verzlunarmanna ákvað á fundi sínum á fimmtudag að hækka vexti á óverðtryggðum breytilegum íbúðalánum úr 5,73 í 6,56 prósent, eða um 0,83 prósentustig. Breytingin tekur gildi 1. október næstkomandi. Um er að ræða lán fyrir 70 prósent af kaupverði sem að hámarki mega vera 75 milljónir króna.
Þetta er gert í kjölfar þess að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig, í 5,5 prósent, síðastliðinn miðvikudag.
Aðrir lífeyrissjóðir sem eru stórtækir í íbúðalánum: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi og Brú hafa ekki tilkynnt um vaxtahækkanir síðan að ákvörðun Seðlabankans lá fyrir. Þá hafa stóru viðskiptabankarnir: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, ekki tilkynnt um hækkanir enn sem komið er.
Það er þó búist við að allir ofangreindir muni hækka óverðtryggða útlánsvexti sína í nánustu framtíð.
Fólk flykktist í breytilega óverðtryggða vexti
Hlutfall lána sem er á breytilegum vöxtum hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum, en kjör á þeim urðu um tíma mjög skapleg eftir að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti niður í 0,75 prósent á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð. Aðsókn í óverðtryggð lán, sem fela í sér hærri greiðslubyrði en hraðari niðurgreiðslu á höfuðstól, jókst í þessu ástandi. Hlutfall þeirra af öllu útlánum til íbúðarkaupa var 15 prósent um mitt ár 2016 og 27,5 prósent í byrjun árs 2020 en er nú komið í 56 prósent.
Stýrivextir hafa hækkað um 4,75 prósentustig frá því í maí í fyrra vegna viðleitni Seðlabankans til að stemma stigu við sífellt aukinni verðbólgu, en hún mælist nú um 9,9 prósent. Bankinn spáir því að verðbólgan fari í 10,8 prósent fyrir lok árs. Helsti drifkraftur hennar hefur verið hækkandi íbúðaverð.
Íbúðamarkaður farinn að kólna
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1 prósent milli mánaða, samkvæmt nýbirtri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það er mun minni hækkun milli mánaða en hefur mælst milli mánaða í nokkuð langan tíma og því ljóst að aðgerðir Seðlabankans til að draga úr vilja og getu til lántöku eru að hafa áhrif.
Íbúðaverð á svæðinu hefur hækkað um 15,5 prósent síðustu sex mánuði og 25,5 prósent síðasta árið. Ef horft er aftur til upphafs kórónuveirufaraldursins, sem hófst af alvöru hérlendis í mars 2020, þá hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 48 prósent.
Á landinu öllu hækkaði íbúðaverð um 26,4 prósent frá júní í fyrra og til loka sama mánaðar í ár. Verðið hækkaði meira í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landsbyggðinni en í höfuðborginni sjálfri og sveitarfélögunum sem liggja að henni.
Athyglisvert er að frá sumrinu 2020 hefur verðbil á íbúðum aukist þannig að dýrar íbúðir virðast hafa hækkað meira í verði en ódýrar, samkvæmt samantekt HMS.
Stóraukin greiðslubyrði heimila
Greiðslubyrði húsnæðislána lækkaði skarpt þegar Seðlabankinn hóf að lækka stýrivexti í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Strax um síðustu áramót, þegar stýrivextir voru tvö prósent, var greiðslubyrði íbúðalána á höfuðborgarsvæðinu þó orðin svipuð og hún var fyrir faraldurinn vegna vaxta- og verðhækkana á íbúðamarkaði. Síðan þá hafa stýrivextir verið hækkaðir um 3,5 prósentustig og greiðslubyrði lána stóraukist samhliða.
Í hagsjá Landsbankans sem birt var í lok júní, skömmu eftir að stýrivextir voru hækkaðir í 4,75 prósent, var tekið dæmi af 40 milljóna króna láni á lægstu óverðtryggðu vöxtum. Vaxtabyrði þeirra hafði þá hækkað um 98 þúsund krónur frá því í maí í fyrra. Landsbankinn bjóst við því að vextir myndu halda áfram að hækka og að vaxtabyrðin aukast um 25 þúsund krónur í viðbót á þessu ári. Gangi sú spá hans eftir hefur hún farið úr 110 þúsund krónum á mánuði i 233 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir að lántakandinn borgar tæplega einni og hálfri milljón króna meira í afborganir á ársgrundvelli en áður.