Sænska verslunarkeðjan Lindex, sem er með verslanir undir sínu nafni í Kringlunni, Smáralind og Glerártorgi, er með stærsta viðskiptavinahópinn hjá Meniganotendum, að því er fram kemur í umfjöllun hjá Meniga um fatainnkaup á vefnum Medium.
Sænski risinn H&M hefur lengi verið með stóran hluta af fatainnkaupum Íslendinga þrátt fyrir að reka ekki verslun undir sínu nafni hér á landi. Íslendingar versla í stórum stíl í verslunum H&M erlendis.
Mikil breyting hefur orðið á skömmum tíma í þessum efnum, að því er fram kemur í greininni, en í nóvember í fyrra var H&M með mestu markaðshlutdeildina á íslenskum fatamarkaði, samkvæmt gögnum Meniga, eða 22 prósent. Tæp 37 prósent notenda Meniga verslaði í H&M samkvæmt skoðun á stöðu mála í nóvember í fyrra, og gert var grein fyrir á vef Kjarnans.
Frá apríl og fram í júní 2015 verslaði hins vegar 34 prósent úrtaks Meniga, sem náði yfir 18 þúsund manns, hjá Lindex en 25 prósent í H&M.
„Frá því að Lindex opnaði sína fyrstu verslun hér árið 2011 hefur salan þar aukist jafnt og þétt. Núna eru fimm Lindex verslanir opnar hér á landi og viðskiptavinahópurinn orðinn sá stærsti á íslenskum fatamarkaði,“ segir í greininni frá Meniga.
Heildarfjöldi notenda Meniga á Íslandi er um 40 þúsund.