Lífeyrissjóður verzlunarmanna, keypti hlutabréf í Símanum fyrir 340 milljónir, það er 100 milljónir hluta á genginu 3,4. Þetta kemur fram í tilkynningu um viðskipti til kauphallar, en Lífeyrissjóður verzlunarmanna var einn stærsti hluthafi Símans með 13,2 prósent hlut, fyrir viðskiptin.
Þeir fjárfestar sem skráðu sig fyrir hlut í Símanum í hlutafjárútboði sem lauk í fyrradag þurfa flestir að greiða 3,4 krónur fyrir hvern hlut sem þeir kaupa í félaginu. Alls var 16 prósent hlutur seldur á því gengi en fimm prósent voru seld til minni fjárfesta á 3,1 krónur á hlut, eins og greint hefur verið frá í ítarlegum fréttaskýringum Kjarnans um skráninguna á Símanum.
Mikil umframeftirspurn var eftir bréfum í Símanum. Alls nam söluandvirði þess 21 prósent hlutar sem seldur var um 6,7 milljörðum króna. Heildareftirspurn var hins vegar 33 milljarðar króna. Því var eftirspurnin fimm sinnum meiri en framboðið. Verðið er hærra en flestir greiningaraðilar töldu að það yrði.
Í aðdraganda þess að hlutafjárútboðið fór fram ákvað Arion banki, sem varð stærsti eigandi Símans í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar hans sem lauk árið 2013, að selja tíu prósent hlut til valdra aðila. Fyrst ákvað bankinn að selja hópi stjórnenda Símans, og fjárfestahópi sem forstjóri félagsins hafði sett saman, fimm prósent hlut á genginu 2,5 krónur á hlut. Þessi viðskipti áttu sér stað í lok ágústmánaðar, rúmum mánuði áður en hlutafjárútboð Símans fór fram. Miðað við það gengi sem var á þorra þess hlutafjár sem Arion banki seldi í útboðinu, 3,4 krónur á hlut, hefur þessi hópur þegar ávaxtað fjárfestingu sína um 36 prósent á rúmum mánuði. Það þýðir að hlutur sem var keyptur á 100 milljónir króna er nú orðin 136 milljóna króna virði. Þó er vert að taka fram að hópurinn skuldbatt sig til að selja ekki hlutinn strax.
Síðari hluta september var síðan greint frá því að valdir viðskiptavinir Arion banka hefðu fengið að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,8 krónur á hlut. Þessi viðskipti áttu sér stað nokkrum dögum áður en hlutafjárútboð Símans hófst. Ekki hefur verið upplýst um hverjir það voru sem fengu að kaupa á þessum afsláttarkjörum. Hlutur þeirra hefur hins vegar ávaxtast um 21,5 prósent á þessum fáu dögum sem liðnir eru frá því að þeir keyptu hann. Þessi hópur má ekki selja hluti sína fyrr en 15. janúar 2016.